„Það eru allir leikmenn liðsins heilir og til í slaginn annað kvöld. Við munum gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik. Það er jákvætt að það sé komin mikil samkeppni um sæti í byrjunarliðinu og ég fagna því að þurfa að svara fyrir liðsval mitt fyrir leiki," sagði Þorsteinn Hreiðar Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta en lið hans býr sig undir leik gegn Kýpur í undankeppni HM 2023 sem spilaður verður á Laugardasvelli annað kvöld.

„Ég finn fyrir því að sigurinn gegn Tékklandi í síðustu umferð gaf leikmönnum liðsins mikið sjálfstraust og ég hef ekki áhyggjur af spennufalli eða værukærð hjá liðinu í leiknum gegn Kýpur. Þrátt fyrir að kýpverska liðið hafi fengið skelli í fyrstu leikjum undankeppninnar þá er þetta duglegt lið sem erfitt er að brjóta á bak aftur," segir Þorsteinn enn fremur.

Í fyrstu þremur leikjum sínum hefur Kýpur fengið á sig 20 mörk og skorað eitt mark en Þorsteinn segir að þrátt fyrir þá staðreynd þurfi að sýna liðinu og verkefninu virðingu.

„Við verðum að sýna andstæðingum okkar virðingu og fara af fullum krafti inn í verkefnið. Við viljum halda áfram að þróa leik liðsins í þá átt að þora að halda boltanum, sækja í ákveðin svæði og spila boltanum á milli línanna.

Ég er fyrst og fremst að fara inn í þennan leik til þess að vinna eins og ég stefni alltaf að. Það er ekki þannig að ég fari fram á við liðið að skora mikið af mörkum," segir þjálfarinn um komandi verkefni.

„Það var jákvætt að fá mörk úr ólíkum áttum í leiknum gegn Tékklandi og sá leikur var jákvætt skref í þróun liðsins. Við erum að fara inn í leik sem við munum stjórna og það er áskorun að brjóta varnarmúrinn á bak aftur. Við höfum farið vel yfir þær leiðir sem eru hentugastar til þess að gera það á æfingunum á milli leikjanna," segir hann um undirbúninginn.

Þorsteinn Hreiðar Halldórsson stýrir hér æfingu íslenska liðsins.
Fréttablaðið/Eyþór