Söguleg stund átti sér einnig stað í fimleikasalnum í Tókýó þegar Oksana Chusovitina kvaddi eftir að hafa keppt á Ólympíuleikunum í áttunda sinn. Oksana, sem er frá Úsbekistan, hefur keppt á Ólympíuleikunum frá árinu 1992 þegar leikarnir voru haldnir í Barselóna.

„Það var stórkostleg stund í höllinni. Hún var í síðasta hópnum sem klárar einmitt á stökkinu þegar það líður á kvöldið,“ segir Hlín Bjarnadóttir sem dæmir á Ólympíuleikunum í áhaldafimleikum. Viðtal við hana birtist í helgarblaði Fréttablaðsins.

Eftir að Oksana hafði lokið við sínar æfingar fór hún aftur upp á keppnispallinn til þess að veifa og þakka fyrir sig í síðasta sinn á Ólympíuleikum.

„Þá standa bara allir upp, bæði þjálfarar, keppendur og allir dómarar og klappa fyrir henni. Í alvörunni, það voru allir klökkir. Þetta var ótrúleg stund. Maður getur rétt svo ímyndað sér hvað þetta hefði verið stórkostleg kveðjustund fyrir hana, íþróttina og Ólympíuleikana ef höllin hefði verið full af áhorfendum,“ segir Hlín.

Hlín og Björn verða aftur í eldlínunni þegar úrslit á einstökum áhöldum fara fram á sunnudags- og mánudagsmorgun.