Gunnar Nielsen, markvörður FH og færeyska landsliðsins, segir ævintýri KI Klaksvíkur vera skemmtilegt áhorfs, jafnvel fyrir sig sem grjótharðan HB-stuðningsmann. Klaksvíkurliðið mætir í dag liði Dundalk, í einvígi um hvort liðið komist í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Íslensk félagslið hafa lengi átt þann draum að komast í þá stöðu sem Klaksvík er í, en Evrópuúrslit undanfarin ár benda til að íslenskur fótbolti standi þeim færeyska langt að baki. Í frétt Elvars Geirs Magnússonar, ritstjóra fótbolta.net, er sagt að augu heimsins beinist að Klaksvík í Færeyjum.

Færeyskur fótbolti er að gera eitthvað betur en sá íslenski, því fyrir utan velgengni Klaksvíkur vann B36 þrjá leiki í Evrópukeppninni áður það féll út fyrir CSKA frá Sofíu. Í síðasta landsliðsglugga hrósuðu Gunnar og félagar sigri í báðum leikjum sínum. Trúlega langar engan að rifja upp hörmungarnar sem íslensku félögin buðu upp á að þessu sinni í Evrópukeppninni, en gengi íslenskra liða hefur verið svo slæmt að undanförnu að UEFA mun taka eitt Evrópusæti af deildinni 2022.

„Ég er auðvitað HB-maður en ef þeir fara áfram yrði það frábært fyrir færeyskan fótbolta. Ég held að allir Færeyingar vonist eftir að Klaksvík komist áfram,“ segir Gunnar, en hann mun missa af leiknum þar sem lið hans FH mætir Stjörnunni í kvöld.

Gunnar segir að umræðan hafi verið lík í Færeyjum og hér. Hvernig geti lið þaðan komist í riðlakeppnina. „Að sjálfsögðu þarf maður heppni og allt það, en þetta er risastórt tækifæri fyrir Klaksvík því þetta er bara einn leikur. Venjulega eru þetta alltaf tveir leikir en núna eru þetta bara 90 mínútur. Ég vona auðvitað að þeir komist áfram, ekki spurning.“

Hann segir að árangurinn sé eftirtektarverður og að hans viti hafi ekki orðið nein stefnubreyting hjá færeyska knattspyrnusambandinu til að draumurinn gæti orðið að veruleika. „Það er margt í þessu. Það er kominn aðeins meiri peningur í færeyskan fótbolta og Klaksvík er með mjög gott lið. Þeir eru með halfsenterapar sem er í landsliðinu og eru með góðan hóp, góða útlendinga, sem hafa styrkt liðið mikið og svo er þetta heppni líka. Það er bara einn leikur, sem skiptir miklu máli. Það er erfitt að benda á eitthvað eitt atriði sem útskýrir þessa velgengni, heldur er þetta blanda af mörgum hlutum.“

Allir knattspyrnuvellir í Færeyjum eru á gervigrasi. Það er passað upp á að þeir séu opnir, þannig að krakkar mega vera á vellinum að leika sér og hjá þeim eru boltar sem börn mega nota. Þreföld umferð er í Færeyjum og peningarnir og aðstaðan er alltaf að verða meiri og betri. Svona mætti áfram telja.

„Einu sinni var talað um að of margir leikmenn væru að spila erlendis, sem væri ekki gott fyrir landsliðið. Svo komu margir heim og þá var það líka slæmt. Í ár er ekki bara Klaksvík að standa sig vel því B36 stóð sig líka vel. NSÍ fór líka áfram. Við erum bara 50 þúsund en það er allt í kringum fótboltann orðið betra að undanförnu.“

Vinni Klaksvík og komist í riðlakeppnina er hætt við að liðið verði enn sigursælla heima við. Liðið hefur unnið 18 titla og tók titilinn af Heimi Guðjónssyni og liði Gunnars, HB, í fyrra. Þá hefur félagið lyft bikarnum sex sinnum. „Það er samt þannig að ef Klaksvík fær alla þessa peninga og styrkir sig þá þurfa hin liðin líka að stækka og stíga upp. Elta þá, þannig að allur færeyski fótboltinn styrkist. Ég horfi á þetta þannig.“

Mikkjal Thomassen tók við Klaksvíkurliðinu fyrir fimm árum.
Gunnar, markvörður FH, nær ekki leiknum í kvöld gegn Dundalk.