Brasilíski markvörðurinn Alisson Becker segir að sú staðreynd að Liverpool sé í Meistaradeild Evrópu í vetur en ekki Chelsea hafi átt stórt hlutverk í því þegar hann þurfti að velja á milli liðanna í sumar.

Liverpool greiddi metfé fyrir markvörð þegar félagið keypti hann frá Roma í sumar en Chelsea bætti það met stuttu síðar þegar félagið keypti Kepa Arrizabalaga frá Spáni.

Umboðsmaður hans vissi af áhuga frá báðum liðum en Alisson segir frá því í samtali við FourFourTwo að hann hafi heillast af Liverpool.

„Ég valdi Liverpool með það að markmiði að vinna Meistaradeild Evrópu með félaginu og ég taldi þetta rétt skref á ferlinum. Chelsea var ekki í Meistaradeildinni og í miðjum þjálfaraskiptum,“ segir Alisson sem hreifst af sögu Bítlarborgarliðsins.

„Ég hef alltaf hrifist af Liverpool og sögu félagsins. Liverpool hefur orðið Evrópumeistari fimm sinnum og draumur minn er að bæta við titli í safnið.“