Liverpool verður án aðalmarkvarðar síns hins brasilíska Alisson Becker þegar að liðið mætir Manchester City í Samfélagsskildinum á laugardaginn næstkomandi. Þetta staðfesti Jurgen Klopp, knattspyrnustjóri liðsins á blaðamannafundi í dag.

Alisson hefur hins vegar náð að æfa lítillega með liðinu undanfarna daga og Klopp býst við því að hann verði klár í slaginn eftir rúma viku þegar að enska úrvalsdeildin fer af stað og Liverpool mætir nýliðum Fulham. Þá er Diogo Jota, sóknarmaður Liverpool einnig frá vegna meiðsla.

,,Alisson og Diogo geta ekki verið með um helgina. Alisson æfði í dag og gat beitt sér meira en í gær og ég tel að hann verði tilbúinn fyrir leikinn gegn Fulham en ekki fyrir laugardaginn," sagði Klopp á blaðamannafundi í dag.

Talið er að Adrían standi vaktina í marki Liverpool en Caoimhin Kelleher, varamarkvörður Liverpool er einnig frá vegna meiðsla.