Vegferð íslenska karlalandsliðsins í handbolta á heimsmeistaramótinu hefst þegar liðið mætir Portúgal í Kaíró í kvöld. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta og aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins, segir fyrsta leik íslenska liðsins á mótinu vera algjöran lykilleik.

„Það lið sem hefur betur í þessum leik er líklegt til þess að fara með fjögur stig inn í milliriðilinn og það er algjörlega himinn og haf á milli þess að fara með tvö eða fjögur stig þangað upp á möguleika á að komast í átta liða úrslit á mótinu.

Frammistaða íslenska liðsins í leikjunum tveimur gegn Portúgal í undankeppni EM 2022 á undanförnum dögum vekur góða tilfinningu hjá mér. Að mínu mati er hins vegar klókt hjá Guðmundi [Þórði Guðmundssyni, þjálfara íslenska liðsins] að fara með báða fætur á jörðinni inn í þetta mót,“ segir Ágúst Þór um komandi verkefni hjá Strákunum okkar.

„Mér hefur fundist varnarleikur Íslands góður í þessum tveimur leikjum við portúgalska liðið og hann styrkist enn frekar ef Alexander Petterson getur spilað í leiknum í kvöld sem ég býst fastlega við. Það er mikilvægt að við náum upp góðri vörn og hraðaupphlaupsmörkum til þess að létta álagið á uppstilltum sóknarleik sem við höfum átt í svolitlum vandræðum með.

Við sýndum það hins vegar í seinni hálfleik í leiknum að Ásvöllum að taktíkin okkar gengur upp ef menn eru áræðnir í sínum aðgerðum og hlaup og boltahreyfing fara saman,“ segir hann enn fremur.

Janus Daði mætti taka fleiri skot

„Ég held að Ágúst Elí [Björgvinsson] hafi unnið sér sæti í byrjunarliðinu með frammistöðu sinni í síðustu tveimur leikjum liðsins. Sú spilamennska hefur orðið til þess að menn bera væntingar til hans sem ég hef fulla trú á að hann standi undir.

Útilínan í sóknarleiknum ætti að mínu mati að vera Elvar Örn Jónsson, Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon til að byrja með. Mér finnst Janus Daði mega horfa aðeins meira á markið en hann hefur verið að gera og skjóta meira á markið.

Svo hefur Viggó Kristjánsson verið að spila vel, bæði með félagsliðinu sínu og landsliðinu þannig að breiddin hægra megin er góð í sóknarleiknum.

Ég vona síðan innilega að Gísli Þorgeir Kristjánsson hrökkvi í gang á þessu móti því við vitum öll hvers megnugur hann er þegar sá gállinn er á honum. Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik og orðinn smá stressaður. Ég spái aftur á móti íslenskum sigri og vonandi verð ég sannspár,“ segir þjálfarinn um komandi leik.