Rakel Sara Elvarsdóttir er þrátt fyrir að vera 18 ára gömul einn af þeim leikmönnum sem áttu stóran þátt í að Íslandsmeistaratitillinn í handbolta kvenna fór norður yfir heiðar í fyrsta skipti í sögunni um nýliðna helgi.

KA/Þór varð á sunnudaginn Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta skipti í sögu félagsins eftir sigur á Val í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi um titilinn í Olís-deild kvenna.

Rakel Sara Elvarsdóttir, sem er 18 ára gömul og leikur í hægra horninu, er þrátt fyrir ungan aldur ein af lykilleikmönnum liðsins og hefur raunar verið það undanfarin þrjú keppnistímabil.

Auk þess að vera í lykilhlutverki hjá nýkrýndum Íslandsmeisturum er Rakel Sara í stóru hlutverki hjá U-19 ára landsliðinu sem er á leið á Evrópumótið í Makedóníu seinna í sumar.

„Þetta var alveg geggjaður dagur frá upphafi til enda. Undirbúningurinn fyrir leikinn á sunnudaginn var bara hefðbundinn, fyrir utan það að KA-heimilið var upptekið vegna yngri flokka móts þannig að við skelltum okkur á Dalvík.

Þar æfðum við við flottar aðstæður, fengum góðan mat eftir æfingu og skelltum okkur svo í pottinn í Hauganesi. Það var bara gott að fá smá uppbrot í undirbúninginn en annars vorum við bara vel stemmdar fyrir leikinn og með mikið sjálfstraust,“ segir Rakel Sara um undirbúninginn og leikdaginn.

„Þegar út í leikinn var komið var spennustigið bara gott og við vorum bara einbeittar í að ná í sigurinn sem okkur vantaði. Það var alveg magnað að sjá pakkfullt hólf af stuðningsmönnum okkar þegar við löbbuðum inn á völlinn og það gaf okkur aukakraft.

Stuðningurinn var frábær og það sást vel að þetta þýddi mikið fyrir þá sem standa að okkur alveg eins og okkur. Eins og í liðinu hefur skapast mikil liðsheild milli þeirra sem eru í kringum liðið og það er mjög gott að finna fyrir því,“ segir hornamaðurinn enn fremur.

Rut hefur kennt mér mikið

Í leikjunum við Val hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvað Rakel Sara er róleg þegar hún fer inn úr horninu á ögurstundum.Rakel Sara segist hafa unnið í því að vera meðvituð um það að vera full sjálfstrausts þegar glufa gefst og hún tekur færin sín úr horninu.

„Bæði Jónatan Magnússon og svo Andri Snær Stefánsson hafa gefið mér mikið traust og ég er ofboðslega þakklát fyrir það. Það hefur hjálpað mér mikið og tilkoma Rutar Jónsdóttur hefur hjálpað mér mjög mikið. Það er mjög þægilegt að spila með henni og hún er yndisleg manneskja sem gefur mikið af sér.

Hún hefur kennt mér mjög mikið á þeim stutta tíma sem hún hefur verið á Akureyri og hún opnar nýjar víddir inni á handboltavellinum. Utan vallar er Rut svo alltaf boðin og búin að gefa góð ráð.

Þó svo að það sé mikill aldursmunur á yngra genginu í liðinu og þeim reynslumiklu þá hefur skapast mikil liðsheild og þetta er bara eitt lið eins og sést vel inni á vellinum,“ segir hún.

Fékk gæsahúð á flugvellinum

„Það var svo bara hálf Akureyri sem var mætt á flugvöllinn að taka á móti okkur þegar við lentum fyrir norðan eftir leikinn. Ég fékk alveg gæsahúð að sjá þær móttökur.

Þessu var vel fagnað eftir leik en svo er bara nýr dagur og ný verkefni sem taka við,“ segir Rakel Sara en það er skammt stórra högga á milli hjá henni og fleiri leikmönnum meistaraliðsins.

Rakel Sara var í leikmannahópi 3. flokks sem lék við Hauka í undanúrslitum Íslandsmótsins í gær.

„Ég spila smá í þeim leik en þjálfararnir stýra álaginu vel. Það er bjart fram undan í handboltanum á Akureyri.

Við erum nokkrar ungar sem höfum fengið mikið traust síðustu árin. Anna Þyrí Halldórsdóttir hefur til að mynda spilað frábærlega inni á línunni hjá okkur í vetur,“ segir Rakel Sara.

Á dögunum framlengdu Rakel Sara, Anna Marý Jónsdóttir, Telma Lísa Elmarsdóttir, Júlía Sóley Björnsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir og Sunna Katrín Hreinsdóttir en þær eru allar tæplega tvítugar og voru í misstórum hlutverkum í KA/Þór-liðinu á nýafstaðinni leiktíð. ■

Mikil gleði braust úr þegar lokaflautan gall í leikslok og titillinn var í höfn.