Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins geta verið sáttir með eigin frammistöðu á Algarve-mótinu sem lauk í gær. Þá vann Ísland Danmörku í vítaspyrnukeppni, 5-4, eftir að staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1. 

Sanne Troelsgaard-Nielsen kom Dönum yfir á 63. mínútu en sjö mínútum síðar jafnaði Hlín Eiríksdóttir metin með skalla eftir hornspyrnu Hallberu Gísladóttur. Þetta var fyrsta mark Hlínar í fimmta landsleiknum. Hlín er aðeins 17 ára og er fyrsti leikmaðurinn sem er fæddur á þessari öld til að skora fyrir íslenskt A-landslið í fótbolta.

 „Leikurinn var spilaður við mjög erfiðar. Það var grenjandi rigning allan tímann, völlurinn þungur og bauð ekki upp á mikinn fótbolta. Við lögðum upp með að vera sterkar í slagsmálunum og reyna að fara fram völlinn með fáum sendingum,“ sagði Ásmundur Haraldsson í samtali við Fréttablaðið eftir leik. Hann stýrði íslenska liðinu í fjarveru Freys Alexanderssonar.

Ísland mætti Danmörku í fyrsta leiknum á mótinu og honum lyktaði með markalausu jafntefli. Sömu úrslit urðu í leik Íslands og Hollands á mánudaginn. Íslenska liðið var því ósigrað í þremur leikjum gegn liðunum sem léku til úrslita á EM á síðasta ári.

„Við vorum búnar að mæta þeim áður og vissum nokkurn veginn hvernig þær myndu spila. Stelpurnar leystu það sem við lögðum upp með. Við pressuðum á þær, lokuðum svæðunum inni á miðjunni og sóttum hratt,“ sagði Ásmundur.

Íslenska liðið var ógnandi í hornspyrnum og í fyrri hálfleik átti Sara Björk Gunnarsdóttir skalla í stöng. Jöfnunarmarkið kom svo eftir hornspyrnu eins og áður sagði.

„Þetta var frábært mark. Hlín stangaði boltann í netið eftir frábæra hornspyrnu Hallberu,“ sagði Ásmundur. Hann segir að frammistaða Hlínar sé einn af ljósustu punktunum við Algarve-mótið í ár.

„Hún var sultuslök með þetta allt. Hún leggur sig gríðarlega mikið fram og það gerist alltaf eitthvað þegar hún fær boltann. Hún heldur boltanum mjög vel og hefur komið gríðarlega sterk inn. Hún átti skilið að skora þetta mark.“

Að sögn Ásmundar var íslenska liðið ekki búið að undirbúa sig fyrir vítakeppnina.

„Við óskuðum eftir spyrnumönnum og stelpurnar stigu fram og kláruðu þetta bara sjálfar,“ sagði Ásmundur. Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Hauksdóttir skoruðu úr spyrnum Íslands og Sonný Lára Þráinsdóttir varði eina spyrnu Dana.