Alfreð Finnbogason hefur æft með liði Augsburg síðustu þrjár vikur og er vongóður um að fá einhverjar mínútur gegn Union Berlin um helgina.

Markahrókurinn þurfti að fara í aðgerð í vor vegna meiðsla á kálfa og missti því af leikjum Íslands gegn Albaníu og Tyrklandi á heimavelli í undankeppni EM 2020.

Alfreð skrifaði á dögunum undir nýjan samning við Augsburg og er nú vongóður um að komast aftur inn á völlinn á næstu dögum.

„Ég hef tekið fullan þátt í æfingum liðsins síðustu þrjár vikur með það fyrir stafni að komast inn á völlinn gegn Union Berlin. Að mínu mati er það raunhæft að fá einhverjar mínútur á laugardaginn og ég vona að það takist eftir langa endurhæfingu,“ sagði Alfreð í samtali við heimasíðu Augsburg og hélt áfram:

„Auðvitað vill maður ekki fara of snemma af stað. Þegar maður er undir það búinn að komast inn á völlinn á ný þá verður maður að taka stökkið.“