Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta er ósáttur með leikjafyrirkomulagi sem var við lýði fyrir 8-liða úrslitin á HM en Þjóðverjar töpuðu í gær fyrir Frökkum í átta liða úrslitum og eru því úr leik.

Í aðdraganda leiksins fengu Frakkar einum degi meira í hvíld heldur en Þjóðverjar, eitthvað sem Alfreð segir að hafi haft mikil áhrif.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik stungu Frakkar af og unnu að lokum sjö marka sigur 35-28.

,,Frakkar áttu skilið að vinna en ekki með svona miklum mun," lét Alfreð hafa eftir sér í viðtali eftir leik. ,,Nokkrir af okkar leikmönnum voru búnir á því. Það sem pirrar mig mest við það er leikjadagskráin.

Það skiptir máli hvort þú fáir tvo daga í hvíld milli leikja eða bara einn líkt og var raunin hjá okkur. Það hafði mikil áhrif."

Það hversu stutt var á milli leikja hafði ekki bara áhrif á leikmennina.

,,Þetta var bara mikil kvöð. Við náðum í raun ekki að undirbúa okkur fyrir leikinn."