Lærisveinar Al­freðs Gísla­son­ar hjá þýska liðinu Kiel og Bjarki Már Elísson hjá Fücshe Berlin mætast í úr­slita­leik EHF-bik­ars­ins í hand­bolta karla.

Kiel hafði betur 32-26 á móti Vigni Svavarssyni og liðsfélögum hans hjá danska liðinu Tvis Hol­ste­bro í undanúrslitum í kvöld. Vignir skoraði þrjú mörk fyrir Tvis Holstebro í leiknum en Gísli Þorgeir Kristjánsson var fjarri góðu gamni hjá Kiel vegna axlarmeiðsla sinna.

Fücshe Berlin hafði hins vegar betur 24-20 í leik sínum við portúgalska liðið Porto en Bjarki Már skoraði þrjú mörk fyrir þýska liðið í leiknum. Úrslita­leik­ur­inn fer fram á heimavelli Kiel annað kvöld.

Alfreð getur þar unnið sinn 18. titil sem þjálfari liðsins en Alfreð er á sínu síðasta ári við stjórnvölinn hjá Kiel. Hann tók við liðinu árið 2008 og mun hætta störfum sem þjálfari liðsins eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur.

Kiel varð bikarmeistari fyrr á þessu tímabili og Alfreð getur þar af leiðandi kvatt þýska liðið með því að hafa bætt tveimur bikurum í safn félagsins.

Bjarki er sömuleiðis að kveðja sitt félag eftir að tímabilinu lýkur en hann yfirgefur þá herbúðir Fücshe Berlin og gengur til liðs við Lemgo. Hann freistar þess því einnig að kveðja sitt lið með titli. Bjarki og félagar hans unnu þessa keppni síðasta vor og þeir geta því varið titil sinn með sigri í leiknum í kvöld