Íslenski handboltaþjálfarinn Alfreð Gíslason hefur verið að gera frábæra hluti með þýska landsliðið á yfirstandandi heimsmeistaramóti. Liðið hafði unnið alla sína sjö leiki fram að leik kvöldsins gegn Noregi sem er ekki lokið og því óvíst hvort sigurganga Alfreðs og Þjóðverja haldi áfram hins vegar er liðið öruggt með sæti í 8-liða úrslitum HM.
Íslendingurinn knái hafði áður gengið í gegnum afar erfiða tíma í tengslum við veikindi og fráfall eiginkonu sinnar, Köru Guðrúnar Melsteð sem lést undir lok maí árið 2021 eftir baráttu við krabbamein.
Það var ekki á döfinni hjá Alfreð að finna ástina á nýjan leik en lífið hafði annað í huga. Í viðtali við Bild lýsir Alfreð því hvernig hann fann ástina á nýjan leik, nú í örmum Hrundar Gunnsteinsdóttur.
„Þetta gerðist bara,“ segir hann í samtali við Bild og lýsir því hvernig unnusta sín Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu hafi haft samband við sig eftir viðtal sem Alfreð veitti Snorra Björnssyni í hlaðvarpsþætti þess síðarnefnda.
„Hún (Hrund) skrifaði mér og bað um viðtal við mig. Ég sagði við hana að næst þegar að ég yrði á Íslandi gæti ég svarað hennar spurningum,“ segir Alfreð við BILD en að á meðan samtali þeirra stóð hafi komið í ljós að faðir Hrundar, Gunnsteinn Skúlason, fyrrum handboltakempa hafi verið aðstoðarþjálfari landsliðsins í fyrsta landsliðsverkefni Alfreðs sem leikmaður.
„Ég veitti henni viðtal og var á leið til Akureyrar að hitta fjölskylduna mína degi eftir það. Ég sagðist myndu koma aftur í næstu viku og sagði að við ættum þá að borða saman. Það var svona sem þetta byrjaði, algjörlega óvænt.“