Alfreð Finnbogason var hetja Olympiacos síðast þegar gríska félagið heimsótti Arsenal en í kvöld þarf gríska félagið að vinna á Emirates.

Arsenal leiðir 1-0 eftir fyrri leik liðanna í Grikklandi og er því á brattan að sækja fyrir Olympiacos.

Tæp fimm ár eru liðin síðan gríska félagið sótti 3-2 sigur til Lundúna í Meistaradeild Evrópu og var þá kunnuglegt andlit hetja Olympiacos.

Alfreð byrjaði leikinn á bekknum en kom inn á í hálfleik fyrir Brown Ideye og var fljótur að láta til sín taka.

Þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik stýrði Alfreð fyrirgjöf Felipe Pardo í netið af stuttu færi.

Þetta var annað af tveimur mörkum Alfreðs fyrir gríska stórveldið áður en hann yfirgaf félagið í janúar og samdi við Augsburg.

Þá var þetta sigurmark leiksins í fræknum sigri Olympiacos sem hafði aldrei unnið leik í Englandi í Meistaradeild Evrópu.

Um leið varð Alfreð aðeins annar Íslendingurinn til að skora í Meistaradeild Evrópu á eftir Eiði Smára Guðjohnsen.