„Það er klárlega neikvæður punktur úr þessum tveimur leikjum er að missa niður forskotið í síðari hálfleik en miðað við hvernig við spiluðum þetta svo leiki þá er það skiljanlegt,“ segir Alfreð Finnbogason.

Framherjinn skoraði síðara markið í 2-2 jafntefli íslenska karlalandsliðsins við Gana í kvöld. Liðið komst í 2-0 í fyrri hálfleik en datt of aftarlega á völlinn í þeim síðari og missti leikinn úr greipum sínum.

„Við töluðum um í hálfleik að gera akkúrat öfugt miðað við það sem við gerðum. Við ætluðum ekki að vera passífir og fara inn í skelina að verja þessa forystu. Við spiluðum svona á stórum köflum á EM og það er mjög hættulegt,“ segir Alfreð.

„Þegar við vinnum boltann í seinni þá vorum við senterarnir oft rétt við okkar eigin teig. Það er mjög erfitt að finna einhvern sem er laus og auðvelt fyrir þá að setja pressu á okkur strax. Við fengum ekkert flæði í leikinn og komumst ekkert áfram.“

Uppskeran úr vináttuleikjunum tveimur fyrir mótið var heldur rýr en fyrr hafði liðið tapað 3-2 fyrir Noregi. Alfreð segir að Norðmennirnir hafi verið talsvert agaðri meðan Ganverjarnir séu líkamlega sterkari, með meiri einstaklingsgæði og óútreiknanlegri.

„Það bíður okkar á móti Nígeríu. Það verður mjög erfiður leikur líkamlega og við verðum alltaf að vera á tánum og halda áfram. Við pressuðum vel í fyrri og vorum oft þrír á þrjá eða fjórir á þrjá en náðum ekki að halda út allan leikinn.“

Þrátt fyrir léleg úrslit segir Alfreð að það sé hægt að taka margt með úr leikjunum. Fjögur mörk hafi verið skoruð og það sé jákvætt. Gylfi Sigurðsson er kominn aftur á skrið eftir meiðsli og þá hafi liðið náð að prófa ýmsa hluti.

„Það er oft þannig að æfingaleikir eru fyndnir hjá okkur. Við náðum ekki úrslitum en vonandi fáum við og þjálfararnir eitthvað út úr þessu,“ segir Alfreð.

Liðið flýgur út á laugardag og er þá aðeins vika í fyrsta leikinn gegn Argentínu í Moskvu. Aðspurður um það hvort menn hafi mögulega spilað ekki alveg á fullu gasi til að setja sig ekki í óþarfa hættu segir Alfreð að það sé mögulegt.

„Það verður að segjast eins og er að menn eru með þetta bak við eyrað. Þeir urðu pirraðri og grófari eftir því sem leið á leikinn og við vorum „sloppy“ í nokkrum aðgerðum og það spýtist út í liðið. Þeir espuðust upp og mega eiga það að þeir gerðu þetta vel. Færðu menn niður og voru alltaf með aukamann á miðjunni og við fundum ekki svör við því,“ segir Alfreð.