Margir af nánustu að­stand­endum ís­lenska knatt­spyrnu­mannsins Al­fonsar Samp­sted verða á Emira­tes-leik­vanginum í Lundúnum í kvöld og verða vitni að því þegar einn af draumum hans rætist. Bodø/Glimt reynir enn og aftur fyrir sér á stóra sviðinu. Skytturnar í Arsenal bíða.

Það hefur gengið vel í Evrópu­keppnum hjá Al­fons og liðs­fé­lögum hans í norska úr­vals­deildar­fé­laginu Bodø/Glimt undan­farið. Liðið komst alla leið í átta liða úr­slit Sam­bands­deildar UEFA á síðasta tíma­bili þar sem nokkur risa­stór knatt­spyrnu­lið í Evrópu lágu í valnum.

Þá er liðið tap­laust í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar hingað til en þar er Bodø/Glimt í riðli með PSV Eind­hoven frá Hollandi, FC Zürich frá Sviss og stór­liði Arsenal frá Eng­landi.

„Við höfum átt tvo mjög flotta fyrstu leiki í riðla­keppninni hingað til,“ segir Al­fons við Frétta­blaðið. „Náðum til að mynda í stig á erfiðum úti­velli gegn PSV í fyrstu um­ferðinni og erum í raun ó­heppnir að hafa ekki náð að ræna sigrinum þar í upp­bóta­tíma. Svo í leiknum gegn FC Zürich stjórnuðum við ferðinni al­gjör­lega frá A til Ö og aldrei nein raun­veru­leg hætta á að þeir færu með eitt­hvað til baka heim til Sviss.“

Skytturnar bíða

Næsta verk­efni er risa­vaxið en í kvöld mætir Al­fons á­samt liðs­fé­lögum sínum á Emira­tes-leik­vanginn í Lundúnum þar sem and­stæðingurinn verður enska úr­vals­deildar­fé­lagið Arsenal sem hefur farið af­skap­lega vel af stað á yfir­standandi tíma­bili.

„Eins og staðan er núna situr Arsenal í fyrsta sæti ensku úr­vals­deildarinnar. Við höfum verið að skoða klippur úr leikjum liðsins og maður hefur síðan sjálfur í gegnum tíðina náttúru­lega séð milljón klippur fá leikjum liðsins í ensku úr­vals­deildinni.

Þetta er lið sem vill halda í boltann, þeir eru dug­legir að láta and­stæðinginn hlaupa og hafa á að skipa leik­mönnum á mjög háu gæða­stigi.Í grunninn býst maður bara við leik þar sem þeir munu lík­lega stjórna ferðinni en það þýðir samt ekki að við þurfum að kasta okkar gildum út um gluggann. Við munum alltaf reyna að vera við sjálfir.

Arsenal situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar
Fréttablaðið/GettyImages

Draumur að rætast

Al­fons, sem hefur verið stuðnings­maður Chelsea í ensku úr­vals­deildinni, bendir rétti­lega á gífur­legar vin­sældir deildarinnar hér heima fyrir líkt og raunin er víða um heim.

Hvernig er það þá fyrir hann sem leik­mann að stíga á stóra sviðið gegn jafn þekktu fé­lagi og Arsenal?

„Frá því að maður var lítill hefur maður horft á ensku úr­vals­deildina og dreymt um að spila þar einn daginn. Nú er ég ekki að fara hefð­bundnustu leiðina að því að spila við Arsenal á Emira­tes-leik­vanginum en ó­neitan­lega er þarna draumur að fara rætast.

Þetta eru leikirnir sem maður vill spila og er spenntastur fyrir. Fyrir mig sem Ís­lending sem hefur átt þennan draum lengi og horfir mikið á enska boltann er þetta ó­trú­lega spennandi.“

Ættingjar æstir í miða

Það verður al­gjör Ís­lendinga­veisla á Emira­tes-leik­vanginum í kvöld þar sem nánustu ættingjar og vinir Al­fonsar ætla ekki að láta leikinn fram hjá sér fara.

„Fyrir­spurnirnar um miða á leikinn hafa verið margar og ég reyndi nú að redda mínum nánustu miðum. Ég held að í heildina hafi þetta verið um þrjá­tíu miðar sem fé­lagið náði að græja fyrir mig.Þetta var á­kveðin á­skorun en for­ráða­menn Bodø/Glimt gerðu allt til þess að hjálpa okkur leik­mönnunum að fá miða fyrir okkar nánustu, sem er frá­bært því það er auð­veldara að ferðast til London heldur en til Bodø til að koma að sjá okkur spila.“

Alfons í leik gegn PSV í Evrópudeildinni
Fréttablaðið/GettyImages

Sjarmi við Evrópukvöld

Það er eitt­hvað sér­stakt við Evrópu­kvöldin í boltanum að mati Al­fonsar.

„Mínir skemmti­legustu leikir á ferlinum með Bodø/Glimt hafa verið Evrópu­leikir. Með þessum leikjum kemur ein­hver extra hvatning til að láta finna fyrir sér og standa sig vel í Evrópu.

Nokkur stórveldi lágu í valnum gegn Bodo/Glimt í Sambandsdeildinni á síðasta tímabili
Fréttablaðið/GettyImages

En það sem ég hef einnig tekið eftir er að þegar í Evrópu­leikina er komið tökum við alltaf gríðar­lega mikinn lær­dóm með okkur úr hverjum einasta leik í þeim keppnum þegar við mætum and­stæðingi frá öðru landi.

Þarna erum við að mæta liðum með allt önnur gildi, upp­legg og leik­stíl og sá vinkill er einn af þessum spennandi þáttum við að spila þessa Evrópu­leiki. Að mæta liði með annan bak­grunn í knatt­spyrnu og um leið að bæta okkar leik.“

Önnur staða uppi núna

Bodø/Glimt eru ríkjandi meistarar síðustu tveggja tíma­bila í norsku úr­vals­deildinni en nú situr fé­lagið í öðru sæti deildarinnar langt á eftir Mold­e. Al­fons segir erfitt að tala um svekk­elsi í tengslum við stöðu liðsins.

„Við erum í góðri bar­áttu um Evrópu­sæti enn, auð­vitað hafa á­kveðnir hlutar tíma­bilsins valdið von­brigðum þar sem við höfum verið svekktir með það hversu illa okkur hefur gengið að leysa upp mót­spil and­stæðinga okkar.

Í þeim leikjum liggja and­stæðingar okkar djúpt á vellinum með í leik­kerfinu 5-3-2 og það hefur reynst okkur erfitt. Í þeim leikjum höfum við misst af mörgum stigum.Aftur á móti getum við bara horft til reynslu okkar í Evrópu þar sem okkur hefur tekist að yfir­stíga hindranir og læra af því.

Það sýnir okkur að ef við náum að brjóta á bak aftur þetta leik­kerfi þá erum við komnir með fleiri vopn í vopna­búrið. Maður getur horft á allt sem lær­dóm og við reynum að gera það sem oftast í Bodø/Glimt."

Framtíðin óljós

Al­fons hefur verið á mála hjá Bodø/Glimt síðan árið 2020. Nú­verandi samningur hans rennur út núna um ára­mótin og ó­víst hvað tekur við.

„Ég er mjög sáttur hjá fé­laginu og líður virki­lega vel hérna. Hér fæ ég mikið traust og svig­rúm til að þróa minn leik á­fram. Við­ræður við fé­lagið um nýjan samning hafa átt sér stað en akkúrat núna stendur það bara í stoppi. Við ætlum að sjá hvað dúkkar upp.“

Óljóst er hvað tekur við hjá Alfonsi
Fréttablaðið/GettyImages

Hann segist vita af á­huga annars staðar frá.

„Við erum hins vegar á þeim stað núna á tíma­bilinu að það eru engar á­kvarðanir teknar á þessum tíma­punkti. Einn fé­lags­skipta­gluggi var að lokast og undir­búningur fyrir næsta glugga ekki hafinn.

Á­huginn frá öðrum fé­lögum hefur verið til staðar en ef maður ætlar að velja ein­hvern annan mögu­leika þá þarf hinn sami að vera betri en að vera á­fram hjá Bodø/Glimt, hvað það varðar myndi þurfa mikið til.Ég hef ekki tekið neinar á­kvarðanir um fram­tíð mína, mun bara sjá hvað kemur upp og taka á­kvarðanir út frá því þegar þar að kemur.“