Alfons og samherjar hans í norska liðinu Bodö/Glimt unnu í gærkvöldi 6-1 sigur á Roma í Sambandsdeildinni. José Mourinho, einn farsælasti knattspyrnustjóri heims síðustu áratuga er knattspyrnustjóri Roma og þetta var hans stærsta tap á ferlinum ,,Ég las um það í gærkvöldi og það er ótrúlegt staðreynd en gaman að vera partur af því en að sama skapi þá sýnir þetta hversu góður þjálfari José Mourinho er, hann hefur ekki verið að tapa mörgum leikjum með svona miklum mun," sagði Alfons í samtali við Fréttablaðið í morgun.

Mourinho snýr sér undan martröð gærkvöldsins

Þó svo að þetta hafi ekki verið lokatölur sem Alfons hafi verið að búast við var hann viss um að Bodö/Glimt gæti farið með sigur úr býtum í baráttunni við Roma. ,,Það væri barnalegt að búast við þessum 6-1 úrslitum fyrir leik gegn Roma í Evrópukeppni en við höfðum fulla trú á þessu verkefni og að við gætum unnið sigur á móti þessu sterka liði," sagði Alfons sem lék allan leikinn í liði Bodö/Glimt og átti eina stoðsendingu í leiknum.

Árangurinn mikil lyftistöng fyrir samfélagið

Bodö/Glimt hefur verið að gera það gott heima fyrir og nú líka í Evrópu þar sem liðið situr í efsta sæti síns riðils í Sambandsdeildinni eftir þrjár umferðir. Alfons er hluti af meistaraliði félagsins sem vann norsku deildina í fyrsta skipti í sögu félagsins í fyrra. Sigur gærkvöldsins hefur varpað miklu kastljósi á Bodö/Glimt og Alfons segir stemminguna í kringum félagið vera mjög góða. ,,Náttúrulega fyrst og fremst er ótrúlega gaman að við séum að vekja athygli. Maður sér það á gömlu körlunum í kringum klúbbinn sem hafa verið viðloðandi félagið í áraraðir að þeir eru að fíla þetta í botn, alltaf með risastórt bros á sér um þessar mundir. Þetta tímabil sem við erum að ganga í gegnum núna er frábært og maður finnur hversu mikil lyftistöng þessi árangur er fyrir félagið og samfélagið í heild sinni," sagði Alfons í samtali við Fréttablaðið.

Bodö/Glimt kemur frá borginni Bodö sem er staðsett norðarlega í Noregi. Íbúafjöldinn þar telur rétt yfir 50.000 manns og knattspyrnufélagið hefur seint verið talið sem stórveldi í norskri knattspyrnusögu. Alfons segir forráðamenn félagsins vera staðráðna í því að halda því á meðal þeirra bestu. ,,Það er markvisst verið að vinna að því að bæta allt í kringum félagið og maður finnur að þetta er staður sem félagið ætlar sér að vera á til lengri tíma og það er gaman að vera partur af því," segir Alfons Sampsted, leikmaður Bodö/Glimt í samtali við Fréttablaðið.