Alexandra Jóhannsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, var í hádeginu í dag kynnt til leiks sem leikmaður þýska urvalsdeildarliðsins Eintracht Frankfurt. Alexandra kemur þangað frá Breiðabiki.

Alexandra sem er tvítugur miðvallarleikmaður er uppalin hjá Haukum en hún hefur leikið með Blikum síðustu þrjú ár.

Hún hefur skorað 28 mörk í 67 leikjum í efstu deild fyrir Hauka og Breiðablik. Þá hefur Alexandra skorað tvö mörk í tíu leikjum með íslenska A-landsliðinu.

„Mér var mjög vel tekið í Frankfurt af nýju liðsfélögunum mínum og þjálfarateyminu. Ég hlakka til þeirrar áskorunar að spila með Eintracht Frankfurt í jafn sterkri deild og þýska efsta deildin er. Ég spurði Söru Björk Gunnarsdóttur, liðsfélaga minn hjá landsliðinu, sem spilaði með Wolfsburg, um félagið og deildina við og hún hafði aðeins jákvæða hluti að segja, “ segir Alexandra í samtali við heimasíðu þýska félagsins.

„Ég átti góð samtöl við ​​Niko Arnautis, þjálfara liðsins og íþróttastjórann Siegfried Dietrich og þau sannfærðu mig líka um að Eintracht Frankfurt væri rétti klúbburinn fyrir næsta skref mitt á ferlinum. Fyrir mig eru þessi vistaskipti frábært tækifæri til að þroska mig áfram,“ segir hún enn fremur.

Síðastliðna daga hafa þrír leikmenn sem urðu Íslandsmeistarar með Breiðabliki síðasta sumar samið við þýsk félög en Sveindís Jane Jónsdóttir samdi við Wolfsburg og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir við Bayern München.

Al­ex­andra varð tvisvar sinnum Íslands­meist­ari með Breiðabliki og einu sinni bikar­meist­ari.

Eintracht Frankfurt er eins og sakir standa í sjötta sæti þýsku efstu deild­ar­inn­ar en liðið hefur 17 stig eft­ir tólf um­ferðir.