Knattspyrnumaðurinn Alex Þór Hauksson sem leikið hefur með Stjörnunni allan sinn meistaraflokksferil hefur samið við sænska B-deildarfélagið Öster.

Þetta kemur fram í tilkynningu á samfélagsmiðlum Stjörnunnar.

Alex Þór hefur leikið með Stjörnunni síðustu fjögur ár en á síðasta keppnistímabili var hann fyrirliði liðsins sem hafnaði í fjórða sæti Íslandsmótsins.

Þá hefur hann leikið 18 leiki fyrir íslenska U-21 árs landsliðið og var þessi 21 árs miðvallarleikmaður í lykilhlutverki hjá liðinu þegar það komst í úrslitakeppni EM 2021. Alex Þór hefur auk þess leikið þrjá A-landsleiki.

„Við vissum að Alex hefur haft metnað til þess að stíga skrefið út og núna þegar tækifærið gafst vildum við styðja við bakið á honum til að þróa sinn leik enn frekar,” segir Helgi Hrannarr Jónsson formaður meistaraflokksráðs karla hjá Stjörnunni um félagaskiptin.

„Eftir fjögur góð tímabil fyrir framan bestu stuðningsmenn landsins er ég mjög þakklátur að hafa fengið að taka þátt í fullt af stórum leikjum og vinna bikarmeistaratitill sem og að kynnast öllu því góða fólki sem er innan Stjörnunnar.

Það hefur verið mikill heiður að fá að vera fyrirliði liðsins en ég hef ákveðið að það sé kominn tími á nýja áskorun hjá mér og hlakka ég til að taka við nýju hlutverki sem fulltrúi Stjörnunnar á erlendri grundu. Takk fyrir mig kæra Stjörnufólk og ég hlakka til að fá að setja bláu treyjuna aftur á mig," segir Alex Þór um vistaskiptin.