Þrátt fyrir að vera á 44. aldursári er ekkert að hægjast á Tom Brady sem leiddi lið sitt í úrslitaleikinn um Ofurskálina (e. Super Bowl) í amerískum ruðningi um helgina þegar Tampa Bay Buccaneers hafði betur 31-26 gegn Green Bay Packers í úrslitum Þjóðardeildarinnar. Með því tókst Brady að komast í tíunda úrslitaleikinn um Ofurskálina á einstökum ferli og varð um leið fyrsti leikstjórnandinn til verða meistari í bæði Þjóðar- og Ameríkudeildunum á fyrsta ári sínu í herbúðum Flórídaliðsins.
Átján ár eru liðin frá fyrsta og eina meistaratitli Tampa Bay en undanfarinn áratug hefur liðið verið gert að athlægi innan um sterkari lið í suðurriðli Þjóðardeildarinnar. Brady og stjörnum prýtt lið Buccaneers fá tækifæri til að skrifa nöfn sín í sögubækurnar þann 5. febrúar næstkomandi. Þá koma ríkjandi meistararnir í Kansas City Chiefs til Tampa og mæta Tampa sem verður um leið fyrsta liðið í sögu Ofurskálarinnar til að leika úrslitaleikinn á heimavelli.
Iðulega hefur það reynst mönnum um megn að halda sama takti í áratug í jafn líkamlega krefjandi deild og NFL-deildinni en Brady hefur tekist að afsanna allar slíkar spár. Talið er líklegt að Drew Brees, leikstjórnandi New Orleans Saints, láti nú staðar numið eftir vonbrigðatímabil þar sem sást að aldurinn var farinn að taka sinn toll en Brees er átján mánuðum yngri en Brady. Þá var ekki sjón að sjá Peyton Manning á 18. og síðasta tímabili sínu í NFL, þá á fertugsaldri.
„Þetta er alveg magnað og undirstrikar að Brady er besti leikstjórnandi og leikmaður allra tíma. Hann er vel á sig kominn líkamlega og er ótrúlega sterkur andlega, leggur mikið upp úr því og krefst mikils af liðsfélögum sínum sem eflast fyrir vikið. Það skilur hann frá öðrum og gerir hann að besta leikstjórnanda allra tíma að mínu mati,“ segir Vala Pálsdóttir, fyrrverandi íþróttafréttakona og nemi við Listaháskóla Íslands. Vala bjó um tíma í Boston við nám og fór fjölskyldan af og til á leiki með Patriots og þekkir því vel til Bradys og hans afreka.

Vala var á vellinum haustið 2015 þegar Brady sneri aftur eftir fjögurra leikja bann fyrir aðild sína að máli NFL-deildarinnar sem sakaði Brady og Patriots um að hleypa lofti úr boltunum. Málið vakti mikla reiði í Boston og virtist Brady vera ákveðinn í að svara fyrir sig innan vallar.
„Það var talað um að óvíst væri um framhaldið hjá honum en hann var frábær í þessum leik og tróð sokk upp í allar gagnrýnisraddir. Það virðist sem þessi ótrúlega einbeiting og þessi sigurvilji sé kominn aftur hjá Brady sem vantaði aðeins upp á undir lokin hjá Patriots. Í fyrra virtist hann vera með annað augað á því að koma vörumerki sínu, TB12, á framfæri sem endaði með vonbrigðum í úrslitakeppninni. Það má segja það sama um liðið hjá Patriots í ár, sem virtist vanta leiðtoga og þennan óbilandi sigurvilja.“
Fréttirnar af skiptum Brady yfir til Tampa Bay í mars á síðasta ári skóku íþróttaheiminn vestanhafs enda 20. tímabil Brady í herbúðum New England Patriots nýafstaðið. Með Patriots vann Brady sex meistaratitla sem er met í NFL-deildinni og áttu flestir von á því að Brady myndi ljúka ferlinum innan raða Patriots. Það er ekki á hverjum degi sem slíkar goðsagnir breyta til og hvað þá þegar næstelsti leikmaður deildarinnar á í hlut. Fyrir vikið var mikil spenna í aðdraganda tímabilsins um hvernig árangur Patriots og Buccaneers yrði fyrsta árið eftir viðskilnaðinn en Brady er á leiðinni í úrslitaleikinn sjálfan á meðan Patriots missti af úrslitakeppninni.
„Ég á eftir að gera upp við mig með hverjum ég held í úrslitaleiknum. Þegar ég byrjaði að fylgjast með NFL heillaðist ég af Brady og með því New England Patriots en ég fann það í byrjun tímabils að hjartað fylgir Patriots. Ég finn það samt meðal vina okkar í Boston að það eru margir á krossgötum, hvort fólk gleðjist með Brady og styðji eða sjái bara eftir honum, sumir eru jafnvel fúlir og reiðir út í hann.“
Sonur Völu æfði knattspyrnu með syni Toms Brady og Gisele Bündchen en hún náði þó aldrei að hitta leikstjórnandann goðsagnakennda. Áhuginn á NFL er mikill innan fjölskyldunnar og er iðulega lagt mikið upp úr Super Bowl. „Við lofuðum börnunum að þau mættu vaka yfir leiknum og fá frí í skólanum daginn eftir, þegar við fluttum heim.
Ég var einmitt að ræða þetta við mág minn sem er orðinn Buccaneers-maður eftir að hafa áður stutt Patriots. Ég spurði hann hvað hann hefði gert ef Wayne Rooney hefði farið yfir í Liverpool, hvort hann hefði fylgt honum yfir,“ segir Vala létt og heldur áfram: „Ég átti stærðarinnar mynd af Brady sem ég gaf honum í jólagjöf frekar en að henda. Með því dró ég línuna um hvar stuðningur minn yrði til frambúðar. Hann nuddar mér aðeins upp úr þessu í dag.“
Í úrslitaleiknum mæta Brady og Buccaneers liði Kansas City Chiefs sem er leitt af Íslandsvininum Patrick Mahomes sem dvaldi ásamt unnustu sinni í Mosfellsbæ í viku árið 2017.