Keppni í Formúlu 1 lauk fyrir viku síðan en Hollendingurinn Max Verstappen varð Heimsmeistari eftir mikla dramatík. Margir telja að Lewis Hamilton hafi verið rændur titlinum í lokakeppninni í Abu Dhabi.

Avik sem átti sér stað undir lok síðustu keppninnar í Abu Dhabi hefur skipt kappakstursáhugamönnum í tvennt. Eftir að Nicholas Latifi, ökumaður Williams, klessti bíl sinn innan brautar þurfti að kalla út öryggisbíl. Lengi vel leit út fyrir að keppnin myndi enda fyrir aftan öryggisbílinn en hann var kallaður inn fyrir lokahring keppninnar.

Fyrir það hafði hringuðum bílum fyrir aftan öryggisbílinn verið skipað að halda sig fyrir aftan öryggisbílinn þar sem að þeir voru staðsettir á milli Hamilton sem var í fyrsta sæti og Verstappen sem var í öðru sæti.

Keppnisstjórnendur ákváðu hins vegar að breyta ákvörðun sinni og leyfðu þeim bílum sem voru hring á eftir forystusauðunum að afhringa sig. Frá þeirri stundu varð ljóst að Hamilton ætti erfitt uppdráttar þar sem að Verstappen var á mun betri dekkjagangi. Svo fór að hann tók framúr Hamilton og tryggði sér sigur í stigakeppni ökumanna.

„Aðra eins stemmingu hef ég ekki séð í kringum Formúluna áður," sagði Aron Guðmundsson blaðamaður Fréttablaðsins í þættinum en hann er fróður þegar kemur að kappakstri.

„Það er enginn íþrótt sem býður upp á jafn mikla möguleika á dramatík, þetta er aldrei búið fyrr en flaggið fellur. Regluverkið sem eitthvað þarf að endurskoða," sagði Kristján Einar sem er yfir umfjöllun Formúlunnar hjá Viaplay.

„Hamilton var rændur í Abu Dhabi en það er rétti Heimsmeistarinn. Það var galið það sem gerðist, þetta er ekki rétt og ekki löglegt. FIA er búið að gera þetta löglegt. Það að Verstappen hefði ekki klárað tímabilið sem meistari hefði verið galið," sagði Kristján.