Leið franska sóknartengiliðsins Ousmane Dembele á toppinn var skjót en hún virðist vera jafn fljót niður á við. Spænskir fjölmiðlar fullyrtu um helgina að forráðamenn Barcelona væru tilbúnir að samþykkja tilboð upp á 38 milljónir í franska landsliðsmanninn, innan við þremur árum eftir að félagið samþykkti að greiða Dortmund allt að 145 milljónir fyrir Dembele.

Sumarið 2017 var tvítugur Dembele einn af eftirsóttustu leikmönnum heims. Það voru ekki tvö ár liðin síðan hann lék fyrsta leik sinn fyrir Rennes í franska boltanum og hafði hann heillað öll stærstu lið Evrópu, fyrst með Rennes og síðan með Dortmund. Franski landsliðsmaðurinn var valinn nýliði ársins í Þýskalandi og valinn í úrvalslið tímabilsins í deildinni.

Það var ljóst að Börsungar voru örvæntingarfullir fyrir þremur árum þegar þeir lögðu inn tilboð í franska landsliðsmanninn. Félagið var nýbúið að selja Neymar fyrir metfé og var því enginn skortur á aurum í Katalóníu. Fyrir vikið gátu forráðamenn Dortmund farið fram á hvaða upphæð sem er og náðu að nífalda það sem þeir greiddu sjálfir ári áður. Sjálfur var Dembele ekkert að fara leynt með áhuga sinn á að yfirgefa Dortmund við fyrsta tækifæri og neitaði að æfa með liðsfélögum sínum áður en tilboð Barcelona var samþykkt.

Börsungar neyddust til að greiða uppsett verð og fengu sinn mann ekki fyrr en rétt fyrir lok félagsskiptagluggans. Dembele fékk treyju númer ellefu, sem var áður í eigu Neymar, og var honum ætlað að taka stað brasilíska sóknarmannsins í sóknarþríeykinu með Lionel Messi og Luis Suarez. Hann fékk enga óskabyrjun í treyju Barcelona því hann meiddist snemma og kom aðeins við sögu í 27 leikjum á fyrsta tímabili sínu. Ekki það sem ætlast var til af næsta kyndilbera sóknarleiks Barcelona og arftaka Neymar hjá félaginu.

Það reyndist gefa góða mynd af framtíð Dembele hjá Barcelona. Hann hefur átt í stöðugri baráttu við að haldast heill og ratað meira í fjölmiðla fyrir vandræði utan vallar heldur en afrek innan hans. Ernesto Valverde, þáverandi knattspyrnustjóri Barcelona, þurfti oft að svara fyrir agabrot Dembele þegar fjölmiðlar fullyrtu að hann hefði verið við tölvuleikjaspilun fram eftir nóttu.

Oftar en einu sinni kom það fyrir að Dembele afboðaði sig á æfingar félagsins vegna veikinda en læknateymi Barcelona fann ekkert við nánari skoðun samdægurs. Þegar Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, var spurður út í agavandamálin sagðist hann glíma við sama vandamál og skoraði á Dembele að axla ábyrgð til að sóa ekki ferlinum hjá spænska stórveldinu.

Nú virðist sem hann verði eitt af fórnarlömbum næsta félagsskiptaglugga hjá Barcelona, sem þarf að létta á launaskránni ásamt því að safna aurum til að styrkja liðið næsta sumar. Líklegt er að eitthvað af stóru liðum Evrópu sé tilbúið að gefa Dembele annað tækifæri í von um að hann nái að sýna sitt rétta andlit en ljóst er að hann á ekki mörg tækifæri eftir til að sanna sig í þessum gæðaflokki.