Dagný Brynjarsdóttir heldur áfram að sækja á Hólmfríði Magnúsdóttur á listanum yfir markahæstu leikmenn kvennalandsliðsins frá upphafi en hún skoraði annan leikinn í röð í 5-0 sigri á Kýpur í kvöld.

Þetta var 32. mark Dagnýjar fyrir Íslands hönd og fimmta markið í síðustu fimm leikjum.

Þetta var um leið 24. leikurinn sem Dagný skorar í fyrir Íslands hönd og hefur Ísland ekki tapað neinum af leikjunum sem Dagný hefur skorað í.

Í þessum 24 leikjum hefur Ísland unnið 23 leiki. Eina skiptið sem Íslandi tókst ekki að landa þremur stigum var gegn Tékklandi í jafntefli árið 2017.

Ísland er því með 95,83 prósent sigurhlutfall þegar Dagný skorar þegar það eru tíu ár upp á dag frá fyrsta landsliðsmarki Dagnýjar í 2-0 sigri á Norður-Írlandi.

Rangæingurinn er nú fimm mörkum frá því að ná Hólmfríði. Markamet kvennalandsliðsins sem er í eigu Margrétar Láru Viðarsdóttur, er enn öruggt og virðist vera öruggt næstu árin.

Margrét Lára skoraði á sínum tíma 79 mörk fyrir landsliðið í 124 leikjum.