Andrea Sif Péturs­dóttir, lands­liðs­fyrir­liði kvenna­liðsins í hóp­fim­leikum, var ágætlega sátt með niðurstöðu dagsins er kvennaliðið tók silfur á EM.

„Ég hef aldrei verið sátt með silfur en ég er það núna. Ég var smá hrædd um við myndum enda með bronsið í ár út af það voru hnökrar í dansinum sem ég veit ekki alveg hvað var enn þá en mig grunar það hafi verið hand­staðan,“ segir Andrea.

Andrea sleit hásin í síðasta stökkinu sínu á Evrópu­meistara­mótinu í fyrra er liðið var Evrópu­meistari og átti hún ó­trú­lega endur­komu aftur á dýnuna í dag þar sem hún stökk með liðinu þrátt fyrir að það hafi verið gefið út að hún myndi ekki stökkva á mótinu.

Meiðsli í undan­keppninni ollu þó því að Andrea varð að stíga upp sem hún gerði.

Fékk nýjan stað í dansinum í vikunni

Andrea segir mótið hafa verið erfiðara en önnur þar hún hafi ekki verið með fast sæti í dansinum eða um­ferðum vegna meiðsla sinna í fyrra.

„Ég er bara búin að vera stressuð og ég hef aldrei verið jafn týnd. Ég hef yfir­leitt átt mitt pláss í dansinum, nú hef ég verið að rokka á milli fjögurra staða. Ég lærði staðinn sem ég keppti á í dag í gær hér úti fyrir morgun­mat og dansaði hann í fyrsta skipti áðan,“ segir Andrea.

Andrea Sif og kvennalandsliðið á gólfinu í dag.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir

„Ég vaknaði sex og gat ekki sofið,“ segir Andrea og bætir við að þetta hefur verið erfitt. „En þegar maður er kominn inn á gólfið þá losnar þetta stress, það er bara biðin sem er erfið. Þegar maður er komin inn í upp­hitun og fer að dansa þá finnur maður að maður er alveg með þetta. Eftir það snýst þetta bara um að hafa gaman og njóta,“ sagði Andrea að lokum.

Andrea gerði tvær um­ferðir á dýnu og henti sér fram­heljar­stökk með beinum líkama og heilli skrúfu beint í kraft­stökk og fram­heljar með einni og hálfri skrúfu. Hún endur­tók leikinn í síðustu um­ferðinni með hálfri skrúfu í lokinn.

Hægt er að sjá þriðju og síðustu um­ferð stelpnanna á dýnu hér að neðan.

Andrea Sif í mótlok.
Ljósmynd/Fjóla Þrastardóttir