Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs Vals í Subway-deild karla í körfuknattleik, er brattur fyrir komandi leiktíð en býst við að hún verði ansi krefjandi.Valur er ríkjandi Íslandsmeistari. Liðið vann titilinn í fyrsta sinn í næstum fjóra áratugi í vor, eftir æsispennandi úrslitaeinvígi við Tindastól. Liðið hefur leik í deildinni annað kvöld, þegar Stjarnan kemur í heimsókn.

„Þetta leggst vel í mig. Við eigum góðar minningar frá síðasta tímabili og hlökkum bara til að takast á við verkefni vetrarins,“ segir Finnur við Fréttablaðið.

Stöðugleiki er markmiðið

Valur varð meistari meistaranna með sigri á Stjörnunni á dögunum, þrátt fyrir að nokkra lykilmenn vantaði.

„Stemningin í hópnum er góð. Þetta var upp og niður á undirbúningstímabilinu, en hópurinn er flottur og samheldinn. Þó svo að við höfum misst stór púsl úr honum finnur maður að þeir sem eftir eru hafa náð að viðhalda þessari menningu sem við náðum að skapa í fyrra.“

Valur er nýtt stórveldi í körfuboltanum hér á landi. Hvernig leggst titilvörnin í Finn?

„Ég hef aldrei litið á það þannig að maður verji titil, maður þarf alltaf að sækja hann. Deildin er gríðarlega sterk í ár, mörg góð lið. Við einbeitum okkur við að halda áfram að byggja upp körfuboltann hér á Hlíðarenda og reyna að koma þessu félagi fyrir sem einu af topp sex liðunum í íslenskum körfubolta. Við viljum búa til einhvern stöðugleika, halda honum og vera að eltast við toppinn.“