Breiðablik og Valur mætast í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli í dag. Pétur Pétursson, þjálfari síðarnefnda liðsins, er brattur fyrir leik.

„Þetta leggst vel í mig. Þetta eru tvö sterkustu liðin í dag,“ segir Pétur í samtali við Fréttablaðið.

Breiðablik og Valur hafa verið sterkustu liðin hér heima undanfarin ár. Það má því búast við góðum leik.

„Þetta eru svipuð lið, vilja halda boltanum og sækja á mörgum mönnum. Þú veist aldrei hvað skeður í svona leik. Oftast eru þetta góðir fótboltaleikir, oft mörk en stundum ekki.“

Valur hefur átt frábært tímabil hingað til. Liðið er á toppi Bestu deildarinnar, með fjögurra stiga forskot á Breiðablik og hefur aðeins tapað einum leik. Þá komst liðið í aðra umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu á dögunum. Pétur var spurður út í hvort sjálfstraust liðsins væri ekki í hæstu hæðum.

„Það er það, en hver leikur er sérstakur, sérstaklega bikarleikur,“ segir Pétur Pétursson, þjálfari Vals í knattspyrnu.

Leikurinn hefst klukkan 16 í dag á Laugardalsvelli. Það er hægt að nálgast miða á Tix.is

Smelltu hér fyrir miða á svæði Breiðabliks

Smelltu hér fyrir miða á svæði Vals