Á mánudaginn kemur heldur Aldís Kara Bergsdóttir, Íslandsmeistari í listskautum, á Evrópumeistaramótið í greininni fyrst íslenskra kvenna.

Aldís Kara hefur verið sigursæl undanfarin ár og hefur sett hvert metið af öðru bæði í unglingaflokki sem og fullorðinsflokki. Hún varð fyrst íslenskra skautara til að ná keppnisrétti á heimsmeistarmóti unglinga, sem haldið var í Tallinn í mars árið 2020, rétt áður en faraldurinn skall á.

Síðan þá hefur hún flutt sig upp um flokk og keppir nú í hæsta flokki skautaíþróttarinnar og hefur stefnt að því að ná lágmörkum á stærstu mót greinarinnar á alþjóðavísu.

Skautarar á hennar stigi keppa með tvö prógröm, stutt prógram sem inniheldur skylduæfingar og svo frjálst prógram. Til þess að fá keppnisrétt til þátttöku á meistaramótum Alþjóðaskautasambandsins verður viðkomandi að ná lágmarks stigum í tæknihluta beggja prógrama á viðurkenndum mótum.

Í haust tók Aldís Kara þátt í Nebelhorn Trophy í Þýskalandi sem var síðasta úrtökumótið fyrir Ólympíuleikana. Þar náði hún tæknistigum inn á Evrópumeistaramótið í frjálsu prógrami og í framhaldi af því ákvað að reyna við tæknistig í stutta prógraminu á Finlandia Trophy í Helsinki hálfum mánuði síðar.

Það tókst með glæsibrag og veitti henni keppnisrétt á Evrópumeistaramótinu sem haldið verður í Tallinn í Eistlandi 10. - 16. janúar n.k.

Þetta er í fyrsta skiptið sem íslenskur skautari hefur uppfyllt keppniskröfur á mótið og verður spennandi að fylgjast með þátttöku hennar við þrjátíu og sex aðra skautara frá allri Evrópu, þar á meðal þríeyki frá Rússlandi sem er spáð efstu þremur sætunum á Ólympíuleikunum.

Keppni í stutta prógraminu verður fimmtudaginn 13. janúar kl 11:15 að staðartíma. Þá kemur í ljós hvort Aldís Kara kemst áfram í frjálsa prógramið þann 15. janúar en tuttugu og fjórir efstu komast áfram.

Keppninni verður streymt beint á Youtube rás Alþjóðaskautasambandsins ISU.