Aldís Kara æfir með Skautafélagi Akureyrar undir leiðsögn Darja Zajcenko. Þetta er í þriðja sinn í röð sem hún hlýtur tilnefningu til skautakonu ársins.

,,Aldís Kara er verðugur fulltrúi skautaíþrótta þar sem hún sýnir ávallt mikinn dugnað og metnað við iðkun íþróttarinnar. Hún hefur ekki látið heimsfaraldur stöðva sig og er jafnvel enn staðfastari í sínum markmiðum en áður, en þau voru að ná lágmörkum inn á Evrópumeistaramót og Heimsmeistaramót," segir í tilkynningu Skautasambands Íslands.

Aldís Kara sér inn keppnisrétt á Evrópumeistaramóti í listskautum, fyrst íslenskra skautara. Í janúar 2021 keppti Aldís á RIG21 þar sem hún fékk 123.44 stig og lauk tímabilinu á Vormóti 2021 með 104.35 stig. Á nýju keppnistímabili keppti hún á tveimur ISU Challenger Series mótum, í september og október, með það að markmiði að ná lágmarksstigum á EM og HM sem og að reyna við lágmörk á Ólympíuleikana 2022.

Mynd: Skautasamband Íslands

,,Mikil og þrotlaus vinna er á bak við þennan glæsilega árangur Aldísar Köru og hefur hún sett markið enn hærra og stefnir að því að ná lágmörkum fyrir Heimsmeistaramót einnig," segir í tilkynningu Skautasambands Íslands.

Nýtt ár mun hefjast með þátttöku Aldísar á Evrópumeistaramótinu sem mun verða haldið í Tallin, Eistlandi, dagana 6. – 10. janúar.

Aldís Kara er kappsfull íþróttakona og er yngri iðkenndum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar. Hún er vel að þessum titli komin og frábær fulltrúi fyrir íþróttina. Skautasamband Íslands óskar Aldísi Köru innilega til hamingju með titilinn," segir í tilkynningu Skautasambands Íslands.