Albert Guðmundsson skoraði tvö marka AZ Alkmaar þegar liðið vann sannfærandi 4-1 sigur gegn Rijeka í annarri umferð riðlakeppninnar í Evrópudeildinni í knattspyrnu karla í kvöld.

Þetta er fimmta mark Alberts fyrir AZ Alkmaar á yfirstandandi keppnistímabili en hann skoraði tvö mörk í sigri liðsins gegn Victoria Plzen í forkeppni Evrópudeildarinnar.

Þessi 23 ára gamli sóknarmaður skoraði svo annað marka liðsins í jafntefli gegn ADO Den Haag í hollensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Þá hélt Rúnar Alex Rúnarsson, marki sínu hreinu þegar hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Arsenal í 3-0 sigri liðsins gegn Dundalk. Það voru Edward Nketiah, Joseph Willock og Nicolas Pepe sem skoruðu mörk Arsenal í leiknum.

Sverrir Ingi Ingason stóð síðan vaktina í vörn PAOK þegar liðið gerði markalaust jafntefli við fyrrverandi félag hans Granada. Hörður Björgvin Magnússon gerði slíkt hið sama fyrir CSKA Moskvu sem lék sömuleiðis markalausan leik við Dinamo Zagreb. Arnór Sigurðsson kom inná sem varamaður fyrir CSKA Moskvu á 75. mínútu leiksins.

Rúnar Alex Rúnarsson var öruggur í öllum sínum aðgerðum í frumraun sinni með Arsenal.
Mynd/Getty