Albert Guðmundsson gerði hávært tilkall til þess að fá sæti í byrjunarliði AZ Alkmaar í næstu leikjum með því að skora bæði mörk liðsins í 3-2 tapi á móti ADO Den Haag í 30. umferð hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla í dag.

Albert kom inná sem varamaður í leiknum í stöðunni 2-0 fyrir ADO Den Haag á 66. mínútum leiksins en hann hefur fengið fá tækifæri með liðinu á seinni helmingi leiktíðarinnar.

Um það bil 20 mínútum síðar var Albert búinn að skora tvö mörk með fimm mínútna millibili og hann virtist ætla að tryggja AZ Alkmaar jafntefli.

ADO Den Haag tryggði sér hins vegar sigurinn með marki í uppbótartíma leiksins. AZ Alkmaar tapaði þarna mikilvægu stigi í baráttu sinni við Feyenoord um að komast beint í Evrópudeildina á næstu leiktíð.

Albert og félagar eru hins vegar öruggir með sæti í umspili um sæti í Evrópudeildinni á næsta keppnistímabili en þar munu fjögur lið berjast um sæti í þeirri keppni.

Eftir mörkin tvö í þessum leik hefur Albert skorað fimm deildarmörk á sinni fyrstu leiktíð í liði AZ Alkmaar. Hann hefur leikið 20 deildarleiki fyrir liðið en hann hefur byrjað tíu þeirra og komið tíu sinnum inná sem varamaður.