Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu segir að Albert Guðmundsson hafi ekki verið til í að byrja á bekknum gegn Bosníu & Herzegovinu í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM í næstu viku. Það útskýri fjarveru hans frá landsliðinu.
Fyrr í vikunni hafði Fréttablaðið greint frá því, eftir öruggum heimildum sínum að Albert Guðmundsson, leikmaður Genoa á Ítalíu yrði ekki í landsliðshópi Íslands fyrir komandi verkefni liðsins í undankeppni EM.
Svo varð raunin þegar að landsliðshópur Íslands var opinberaður í gær en í fyrri verkefnum liðsins sagðist Arnar Þór, landsliðsþjálfari Íslands ekki hafa valið Albert vegna þess að hann væri óánægður með hugarfar hans í landsliðsverkefnum.
Arnar var til viðtals eftir fund landsliðsþjálfara með blaðamönnum fyrr í dag þar sem gafst tækifæri til þess að spyrja hann út í landsliðsvalið fyrir komandi verkefni, þar á meðal fjarveru Alberts.
Landsliðsþjálfarinn segist hafa sett sig í samband við Albert fyrir í aðdraganda landsliðsvalsins til þess að kanna stöðuna hjá honum.
„Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka. Eins og ég hef alltaf sagt er hurðin alltaf opin.
Í þessari undankeppni eins og alltaf eru leikir sem öskra á hæfileika Alberts. En það eru líka leikir sem kalla á annars konar hæfileika og önnur leikplön. Ég get ekki, sem þjálfari, valið leikmann í hóp hjá mér sem er ekki tilbúinn til að byrja á bekknum í ákveðnum leikjum og taka því hlutverki sem við teljum að sé best fyrir liðið.“
Hann og Albert hafi átt mjög gott spjall. Það er ekkert illt á milli mín og Alberts. En þegar ég tjáði honum að hann myndi byrja á bekknum á móti Bosníu lét hann mig vita að hann væri ekki tilbúinn í það.“
Í grunninn snúi málið að því sem er best fyrir landsliðið.
„Þetta snýst ekkert um mig. Þetta snýst um íslenska landsliðið. Hurðin er alltaf opin. Albert er með símanúmerið mitt. Undanfarna mánuði er ég búinn að fá mörg símtöl frá leikmönnum sem hafa sýnt áhuga á að vera í íslenska landsliðinu. Ég held að það sé ekkert skemmtilegra en að spila fyrir eigin þjóð.“