Albanski fjölmiðillinn Sport Ekspres fjallar um raunir Harðar Magnússonar, lýsanda á vegum Viaplay sem var staddur á Air Albania leikvanginum í Tirana í gær að lýsa leik Albaníu og Íslands í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu. Hörður virtist óttasleginn undir lok leiks þegar Íslands jafnaði leikinn með marki Mikaels Nevilles Andersonar eftir að hafa verið einum manni færri bróðurpart leiksins.

Sport Ekspres vitnar í Hörð sem lét eftirfarandi orð falla í útsendingunni eftir að Íslands jafnaði leikinn í uppbótartíma venjulegs leiktíma: „Ég fæ slæmt augnarráð, þetta er mjög óþægilegt."

Albanski fjölmiðillinn segir Hörð hafa óttast um öryggi sitt á leikvanginum en með honum í för á Air Albania leikvanginum var Kjartan Henry Finnbogason, framherja KR.

Hörður nefndi það nokkrum sinnum í útsendingunni að hann væri að fá slæmt augnaráð frá stuðningsmönnum Albaníu.

Kollegar Harðar í stúdíói Viaplay hér heima gerðu stólpagrín að Herði eftir leik. Vilhjálmur Freyr Hallsson stjórnandi á Viaplay tók þá við boltanum og sagði: „ Vonandi kemst Hörður heill heim, annars sendum við íslenska Jean-Claude Van Damme út. Rúrik Gísla út að sækja hann," sagði Vilhjálmur og Rúrik glotti við hlið hans.

Rúrik sagði frá því á dögunum að maður vopnaður brotinni glerflösku hafi ætlað að ræna hann á götum Mílanó. Honum hafi hins vegar ekki tekist ætlunarverk sitt.