Al Arabi í Katar birti í dag hálfs mínútna myndband þar sem Aron Einar Gunnarsson var kynntur sem nýr leikmaður liðsins þar sem hann mun leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.

Í myndbandinu sjást hápunktar ferilsins með Cardiff og íslenska landsliðinu áður en hann tilkynnir í íslensku landsliðstreyjunni undir lokin að hann sé á leiðinni.

Kemur fram í færslunni að Aron hafi skrifað undir tveggja ára samning hjá Al Arabi með möguleika á eins árs framlengingu.

Hjá Al Arabi mun Aron Einar leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar líkt og hjá íslenska landsliðinu og verður hann um leið fyrsti Íslendingurinn sem leikur í deildinni í Katar.

Aron eyddi tíma í Katar í aðdraganda HM síðasta vor þar sem hann gekkst undir endurhæfingu við meiðslum með góðum árangri.

Líklegt er að hann muni leika við hlið Victor Vazquez á miðjunni hjá Al Arabi, spænska miðjumanninum sem gekk til liðs við Al Arabi í vetur sem kom upp úr unglingaakademíu Barcelona á sama tíma og Lionel Messi, Cesc Fabregas og Gerard Pique.