Forráðamenn knattspyrnufélaganna AC Milan, Arsenal, Atlético Madrid, Barcelona, Chelsea, Inter Milan, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United, Real Madrid, Tottenham Hotspur hafa ákveðið að setja á laggirnar nýja Ofurdeild Evrópu.

Keppnin verður sett til höfuðs Meistaradeild Evrópu og verður leikið í henni í miðri viku. Stefnt er að því að fá þrjú félög í viðbót inn sem stofnaðila keppninnar.

Þessi 15 félög verða með fast sæti í Ofurdeildinni en fimm lið geta svo komist inn í keppnina á hverju ári í gegnum árangur sinn í sterkustu deildarkeppnum Evrópu.

Nokkur ljón eru í veginum fyrir stofnun keppninnar en til að mynda þarf stjórn ensku úrvalsdeildarinnar að samþykkja að ensku félögin taki þátt í keppninni verði hún að veruleika.

Þá hafa knattspyrnusambönd og forráðamenn deildarkeppnanna á Englandi, Spáni og Ítalíu og samtök evrópskra félagsliða fordæmt þessi áform og tilkynnt að félögunum verði vísað úr deildarkeppnunum heima fyrir.

Þar að auki hafa alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, og evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, hótað róttækum aðgerðum haldi félögin áformum sínum til streitu un Ofurdeildina.

Til að mynda hafa forsvarsmenn FIFA og UEFA sagt að félögin fái ekki að leika í deildarkeppnum heima fyrir og leikmenn liðanna ekki að taka þátt í mótum á vegum sambandanna.

Einstaka menn í knattspyrnuheiminum hafa svo lýst yfir áhyggjum yfir þróun mála ef elítufélögin muni taka sig út fyrir sig og aðrir gagnrýnt Ofurdeildina harðlega.