„Systur mínar voru í sundi og foreldrar mínir hafa alla tíð verið virkir í félagsstarfinu í kringum það. Ég á minningar af mér svona tveggja eða þriggja ára á sundmótum að styðja eldri systur mínar og það varð snemma ljóst að ég myndi byrja að æfa sund.

Ég byrjaði að æfa hjá Ægi og var þar þangað til ég skipti yfir í Fjölni fyrir tveimur árum síðan. Ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning sem ég fékk frá foreldrum mínum og systrum í gegnum þykkt og þunnt á sundferlinum,“ segir Eygló Ósk um upphaf sundferils síns.

„Það var svo þegar ég var níu ára að ég var að horfa á sundkeppni Ólympíuleikanna, sem fram fóru í Aþenu árið 2004, að ég setti mér skýrt markmið um að einn daginn ætlaði ég að synda á Ólympíuleikum. Mér fannst raunhæft að stefna á leikana sem yrðu haldnir árið 2012. Jacky Pellerin byrjaði svo að þjálfa mig þegar ég var 14 ára gömul og hann hjálpaði mér mikið á ferlinum,“ segir Eygló Ósk um fyrstu ár ferilsins.

Tveimur sekúndum frá lágmarkinu ári fyrir leikana

„Ég fór svo á mitt fyrsta heimsmeistaramót 16 ára gömul árið 2011 og þá synti ég á tíma sem var tveimur sekúndum frá lágmarki inn á Ólympíuleikana. Mér fannst það hins vegar klárlega vera raunhæft markmið að fara á leikana ári síðar. Ég æfði áfram jafn vel og ég hafði gert og það var svo á Íslandsmeistaramótinu í upphafi ársins 2012 sem ég náði lágmarkinu,“ segir hún.

„Það má eiginlega segja að ég hafi verið í hálfgerðri leiðslu dagana fyrir Íslandsmeistaramótið og um keppnishelgina, einbeitingin á að ná settu markmiði var svo mikil. Mér er svo minnisstætt að þegar um það bil 50 metrar voru eftir af sundinu tek ég eftir því að allir sem eru á svæðinu, sama í hvaða félagi þeir voru, stóðu upp til þess að hvetja mig áfram. Það var mér mjög dýrmætt,“ segir Eygló um aðdraganda þess að hún komst inn á sína fyrstu Ólympíuleika.

„Hápunkturinn á ferli mínum er svo árin 2015 og 2016, þegar ég komst á pall á Evrópumeistaramótinu árið 2015, var valin íþróttamaður ársins seinna sama ár, og synti svo til úrslita á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016,“ segir þessi frábæri íþróttamaður, sem var þarna, ásamt Hrafnhildi Lúthersdóttur, að vinna afrek sem engin önnur íslensk sundkona hafði gert áður.

Mun klárlega sakna sundsins í framtíðinni

„Ég var mikið spurð að því á þessum tíma hvort ég fyndi fyrir pressu vegna þessa árangurs og auðvitað fann ég fyrir því, en ég var það andlega sterk að það steig mér ekki til höfuðs. Síðan árið 2017 hafa hins vegar bakmeiðsli orðið til þess að ég hef ekki náð að bæta mig og á þessum árum hefur það hvarflað að mér að hætta.

Ég vildi hins vegar gera það á mínum forsendum og vegna þess að Ólympíuleikunum sem fram áttu að fara í Tókýó í sumar var frestað, ákvað ég að hætta á þessum tímapunkti. Mér fannst ég vera orðin södd hvað sundið varðar og tími til kominn að einbeita mér að náminu í sálfræðinni og öðrum hlutum í lífinu.

Dagurinn þegar ég tilkynnti þetta var mikil rússíbanareið tilfinningalega og ég var meyr við að sjá öll þau skilaboð sem ég fékk úr sundheiminum.

Það verður mjög erfitt að horfa á stórmót og Ólympíuleika í framtíðinni og vera ekki á staðnum en ég er sátt við þessa ákvörðun og það sem ég afrekað á ferlinum,“ segir hún um framhaldið.