Nú þegar boltinn er farinn að rúlla í Íslandsmótum karla og kvenna í knattspyrnu eru báðir aðalvellir Akureyrarliðanna Þórs/KA og KA óleikhæfir í upphafi leiktíðar.

Af þeim sökum spilaði kvennalið Þórs/KA sinn fyrsta heimaleik inni í Boganum í vikunni og í gærkvöldi tók karlalið KA á móti Leikni á Dalvík í sínum fyrsta heimaleik.

Reimar Helgason, framkvæmdastjóri Þórs, segir aðstöðuvandann vera mikinn hjá Þór og fyrrnefnt dæmi sé hluti þess vanda sem sé hins vegar víðtækari.

Þá segir Reimar að Þórsarar hafi sagt sig frá starfi þeirrar þverpólitísku nefndar sem teiknaði upp framtíðaráform um byggingar íþróttamannvirkja á Akureyri. Þar hafi ekki verið hlustað nóg á kröfur Þórs og skipulagið geri ekki ráð fyrir að bregðast við því magni af íbúðum sem fyrirhugað er að byggja á svæðinu í kringum Þórssvæðið.

„Það er að okkar mati hneisa að Þór/KA hafi þurft að spila sinn fyrsta heimaleik inni í Boganum, en aðalvöllurinn, sem er flottur yfir hásumarið, er ekki klár á þessum árstíma.

Þórsvöllur verður líklega ekki klár fyrr en í lok maí þó að það sé hiti undir vellinum og vökvakerfi. Af þeim sökum spilar karlaliðið einnig sinn fyrsta heimaleik inni í Boganum,“ segir Reimar.

„Þá bráðvantar okkur almennilegt íþróttahús á Þórssvæðið til þess að geta annað eftirspurn fyrir iðkendur okkar í handbolta og körfubolta.

Aðstaðan í Glerárskóla og Síðuskóla er óboðleg og nánast hættuleg. Til þess að bæta æfingaaðstöðuna fyrir fótboltann vantar svo gervigras utanhúss og þá er bagalegt að við séum að fá undanþágu þar sem ekki er þak á stúkunni á Þórsvellinum,“ segir hann .

Skortir samræmi í áformum

„Það er þyngra en tárum taki að senda börnin okkar inn í Bogann að æfa yfir hásumarið af því að æfingaaðstaðan utanhúss er löngu sprungin og grassvæðin okkar ekki nógu góð.

Það gefur augaleið að við getum ekki annað þeirri eftirspurn sem mun koma með þeim nýju byggingum sem eru á núverandi deiliskipulagi. Við viljum ekki lenda í því sama og KA-menn, það er að byggt sé í kringum okkur og svo farið að velta vöngum yfir uppbyggingu á íþróttamannvirkjum,“ segir framkvæmdastjórinn.

Drógu sig út úr nefndarstarfinu

„Þar sem okkur fannst ekki hlustað nóg á okkar kröfur í þeirri þverpólitísku nefnd sem sett var á laggirnar til þess að meta þörfina á íþróttamannvirkjum í bænum, þá ákváðum við að segja okkur úr því samstarfi. Þar var gert ráð fyrir að næsta uppbygging á íþróttamannvirkjum á Þórssvæðinu færi í framkvæmd eftir tæpan áratug.

Við getum ekki beðið svo lengi og höfum við hafið okkar eigin vinnu við að búa til okkar eigin hugmyndir um deiliskipulag á svæðinu okkar. Svo munum við kanna pólitískan vilja til þess að hrinda þeim áformum í framkvæmd. Þar erum við að tala um heildarskipulag fyrir bæði okkar íþróttastarfsemi sem og lýðheilsustarfsemi fyrir fólk á öllum aldri.

Þegar við sjáum aðstöðuna hjá liðum fyrir sunnan þá sjáum við að þar er uppbygging á íþróttasvæðum gerð með meiri metnaði og fagmennsku en hér fyrir norðan,“ segir hann um næstu skref Þórsara í málinu

Svona lítur Þórsvöllur út þessa stundina.