Jón Þór Hauksson var í gær kynntur sem næsti þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu á blaðamannafundi KSÍ. Tekur hann við starfinu af Frey Alexanderssyni sem tilkynnti eftir undankeppni HM að hann væri hættur störfum. 

Er þetta fyrsta þjálfarastarf Jóns sem tók tímabundið við ÍA haustið 2016 en hefur mestmegnis verið aðstoðarþjálfari hjá Skagamönnum og nú síðast Stjörnunni.

Jón Þór skrifaði undir samning til tveggja ára með möguleika á framlengingu komist Ísland í lokakeppni 2021. 

Undankeppnin fyrir mótið hefst í haust þegar stelpurnar okkar gera atlögu að fjórða Evrópumótinu í röð. Fær hann því góðan undirbúningstíma til að skoða liðið.

„Fyrst og fremst er ég auðvitað gríðarlega þakklátur og stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að þjálfa þetta lið. Þetta er frábært lið með frábærum einstaklingum og ég get ekki beðið eftir því að hefja störf í þessu spennandi verkefni eftir að hafa fylgst vandlega með liðinu og þróun íslenskrar kvennaknattspyrnu,“ sagði Jón Þór Hauksson, nýráðinn þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á blaðamannafundi KSÍ í gær.

Fyrir tveimur vikum fór að kvisast út að Jón Þór myndi taka við liðinu og virtust flestir vera með það á hreinu hver tæki við. Aðspurður sagðist Jón Þór hafa reynt að forðast spurningar um málið.

„Þessi umræða hafði engin áhrif á mig sem slíkan. Auðvitað voru margir sem hringdu til að spyrjast fyrir og maður þurfti að vera með staðlað svar tilbúið í tvær vikur. Ég ráðfærði mig við mitt fólk, fjölskyldu og nána vini.“

Hann horfir þakklátur til baka á tíma sinn hjá Stjörnunni en tilboðið var of gott til þess að hægt væri að afþakka það.

„Ég varð strax mjög áhugasamur þegar KSÍ hafði samband hvort ég hefði áhuga á að taka að mér þetta starf. Þetta er stórt starf fyrir íslenskan þjálfara og það er gríðarlega mikill heiður að koma hingað og þjálfa þetta lið. Ég tók mér smá tíma til að hugsa málið en ég held að það hafi aldrei komið til greina að hafna þessu ef það kæmi samningstilboð,“ sagði Jón og hélt áfram:

„Ég var tilbúinn að skoða tilboð en ég var afar ánægður hjá Stjörnunni sem aðstoðarþjálfari, mér leið gríðarlega vel þar enda algjör topp klúbbur og ég get ekki hrósað leikmönnum og þjálfurum þar nægilega mikið. Ég ætlaði mér að halda áfram enda bara búinn að vera þar í eitt ár, það er ekki góð tilfinning að skilja strax eftir eitt ár því ég taldi mig ekki búinn að gera allt sem ég vildi þar en þegar svona stórt tækifæri kom upp gat ég ekki sagt nei. Ég kveð því Stjörnuna með miklum söknuði.“

Jón Þór sagðist hafa lagt ríka áherslu á að fá Ian Jeffs inn enda með reynslu af því að þjálfa í Pepsi-deild kvenna þar sem hann stýrði ÍBV.

„Ég lagði mikla áherslu á að fá Ian með mér, hann hefur þjálfað kvennalið ÍBV undanfarin ár með góðum árangri og tekið þátt í uppbyggingu knattspyrnu þar, bæði karla- og kvennamegin. Fyrst og fremst er hann gríðarlega hæfur þjálfari og ég er sannfærður um að samstarf okkar á eftir að reynast vel. Fyrir mig að fá þjálfara sem hefur starfað hér í Pepsi-deildinni er gríðarlega mikilvægt, ég hef ekki þann bakgrunn, og ekki reynslu af vinnu með kvennaliði og ég vildi ólmur fá mann inn með þá reynslu. Honum tókst að hrífa mig strax á fyrsta fundi og ég er spenntur fyrir samstarfi okkar,“ sagði Jón og bætti við:

„Fótbolti er ekkert öðruvísi á milli kynjanna svo að þetta ætti ekki að vera neitt nýtt. Það er svo mitt hlutverk að ná því besta fram hjá þessum hópi.“