„Ég var í þeirri stöðu að lýsa þessum leik í sjónvarpinu og þetta gladdi mig alveg ofboðslega. Maður var alveg þvílíkt montinn af honum og stoltur. Það vantaði Bandaríkjamanninn í lið þeirra, Jason Thompson, sem hefur verið að deila mínútum með Tryggva og er fyrrverandi NBA-leikmaður. Tryggvi nýtti tækifærið og sýndi að hann er alveg tilbúinn í stærra hlutverk,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta og körfuboltasérfræðingur á Stöð 2 Sport, aðspurður út í frammistöðu Tryggva Snæs Hlinasonar, landsliðsmiðherjans, á Spáni í síðustu umferð. Þá átti Tryggvi sinn besta leik á ferlinum og er talið næsta víst að hann verði valinn besti leikmaður umferðarinnar eftir að allir leikirnir fara fram en fresta þurfti leikjum.

Benedikt þekkir manna best til Tryggva enda maðurinn sem gaf honum eldskírn sína í efstu deild á Íslandi. Hann segist sjá miklar framfarir á öllum stigum vallarins og segir að það hafi verið snemma ljóst að Tryggvi gæti náð langt.

Körfubolti, Nýr þjálfari landsliðs kvenna í körfubolta, Benedikt Guðmundsson.

„Hann var að skora vel, að rífa til sín fráköst eins og vanalega og að verja skot en það skemmtilegasta fannst mér að fylgjast með sendingunum. Hann var að eiga gullfallegar stoðsendingar sem var heldur sjaldséðari sjón hérna á árum áður. Við vorum nokkrir sem höfðum trú á því að hann gæti farið ansi langt þegar við fengum hann fyrst á æfingu. Hann var ansi hrár í byrjun en hafði þessa náttúrulegu hæfileika sem maður í hans stöðu þarf að hafa. Hann hreyfanlegur, með góðar tímasetningar og samsvaraði sér vel. Honum vantaði það sem var hægt að kenna og miðað við hvað hann var fljótur að læra þá sáum við að það var greinilega björt framtíð,“ segir Benedikt um framfarirnar sem hafa átt sér stað og segir Tryggva vera góðan nemanda.

„Algjörlega. Hann sogar í sig það sem er verið að segja við hann og ótrúlega fljótur að læra.“

Undanfarin ár hefur landslagið í körfuboltanum verið að breytast. Það er sífellt meiri áhersla lögð á þriggja stiga skotin og hreyfanleika og fyrir vikið á staða stærri miðherjanna undir högg að sækja. Það hjálpar ef þeir eru tilbúnir að fara út úr teignum og geta skotið.

„Hann kemur inn þegar miðherjastaðan er að mörgu leyti að breytast, stóru kallarnir að detta úr tísku og hávaxnir fjölhæfir leikmenn eru að fylla þeirra skarð. Það háir honum ekki því Tryggvi er mjög hreyfanlegur miðað við stærð og er enginn stirðbusi,“ segir Benedikt um hinn 216 sentímetra háa Tryggva og hefur orð á því að NBA-lið fari að hafa samband ef honum tekst að bæta þriggja stiga skoti við vopnabúrið.

„Við létum hann æfa þriggja stiga skotin á Akureyri og millilöng (e. Mid-range) skot og reyndum að hvetja hann áfram í því. Ég held að hann fái ekki sama leyfi á Spáni enn þá en þetta blundar í honum. Ef hann bætir því við vopnabúrið þá getur ekki verið langt í símtöl frá NBA-deildinni. Ég held að hann sé mjög sáttur á Spáni og sé ekkert endilega að horfa til Bandaríkjanna, leikstíllinn þar henti honum að mörgu leyti betur hjá einum af betri liðunum í Evrópu. Það er frekar hreyfingin og körfuboltaaðdáendur á Íslandi sem vilja sjá Íslending í NBA.“

Benedikt tekur undir að þakið sé hátt hjá Tryggva enda stutt síðan Tryggvi fagnaði 23 ára afmæli sínu.

„Á meðan hann heldur áfram að bæta sig á hverju tímabili er ég ofboðslega sáttur því ég held að hann geti haldið áfram að bæta sig næstu árin. Það má ekki gleymast að hann er bara nýorðinn 23 ára og þykir bara að vera ungur og efnilegur í Evrópu. Það er alíslenskt að gera kröfu um að vera byrjaður að spila 17-18 ára.“