Utan vallar er skoðanapistill.

Það er mikil eftirvænting fyrir Evrópumóti kvenna en mótið fór af stað í gær en fyrir okkur Íslendinga hefst mótið formlega á sunnudag þegar Ísland mætir Belgíu í fyrsta leik.

Mikil eftirvænting er á meðal þjóðarinnar fyrir frumraun Íslands á mótinu en fimm ár eru liðin frá síðasta stórmóti liðsins. Mótið í Hollandi olli miklum vonbrigðum en nú ríkir gríðarleg bjartsýni í kringum liðið.

Þorsteinn Halldórsson tók við góðu búi af Jóni Þór Haukssyni sem kom liðinu inn á Evrópumótið. Liðið er með marga unga leikmenn sem hafa mikla hlaupagetu, í nútíma fótbolta er hlaupageta og snerpa í bland við gæði leikmanna lykill að árangri.

Íslenska liðið lék einn æfingaleik fyrir mót, íslenska þjóðin gat ekki horft á leikinn gegn Póllandi þar sem útsending RÚV klikkaði. Undirritaður gat hins vegar með krókaleiðum náð sér í ólöglegt streymi og horft á þennan eina undirbúningsleik.

Spilamennska liðsins að stærstum hluta var ekki góð og betur má ef duga skal, Þorsteinn tók þá ákvörðun fyrir leik að setja Söru Björk Gunnarsdóttur í liðið en hún hafði ekki byrjað landsleik í 14 mánuði. Eins og eðlilegt er eftir barnsburð er Sara enn langt frá sínu besta, það voru vonbrigði hversu lítið hún fékk að spila hjá Lyon eftir endurkomu sína og leikæfing hennar er því lítil. Með því að setja Söru inn í liðið var ákveðið að færa Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur á kantinn en hennar var saknað á miðsvæðinu. Karólína hefur snerpu og góða hlaupagetu ásamt því að vera frábær í fótbolta, sóknarmenn Íslands hafða notið góðs af því að hafa hana fyrir aftan sig.

Okkar fróðasta fólk um kvennabolta telur það ekki líklegt til árangurs í jöfnum leikjum að byrja með Söru Björk og Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur saman á miðjunni og setja Karólínu á vænginn. Um þetta er þó aðeins rætt á kaffistofum landsins til þess að rugga ekki bátnum.

Annað vandamál sem blasti við í æfingaleik liðsins gegn Póllandi eru bakverðir íslenska liðsins, Sif Atladóttir og Hallbera Guðný Gísladóttir hafa reynst landsliðinu frábærlega en Sif fagnar 37 ára afmæli sínu á mótinu og Hallbera er 35 ára. Þær hafa mikla reynslu sem gæti reynst dýrmæt en Sif var í vandræðum gegn Póllandi sem bakvörður enda er hennar staða í hjarta varnarinnar. Snöggir kantmenn gætu orðið til vandræða fyrir Ísland.

Eftir að hafa blásið út neikvæðum punktum er rétt að minnast á það að íslenska liðið er frábærlega mannað og ef allt heppnast vel ætti liðið að geta náð langt á mótinu, krafan er alla veganna sú að liðið fari upp úr riðlinum. Annað væru vonbrigði.