Svava Rós Guðmundsdóttir, sóknarmaður íslenska landsliðsins, gekk í raðir NJ/NY Gotham í Bandaríkjunum á dögunum. Hún var búin að afþakka tilboð frá Bandaríkjunum fyrr á ferlinum en var ákveðin í að stökkva á tækifærið ef það byðist í þetta skiptið.
Landsliðskonan Svava Rós Guðmundsdóttir skrifaði um helgina undir samning við NY/NJ Gotham sem leikur í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum. Með því verður Svava fjórði Íslendingurinn til að leika í NWSL-deildinni og sér til þess að Ísland á áfram fulltrúa í deildinni eftir að Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir yfirgaf Orlando Pride á dögunum.
„Þau hafa fyrst samband fyrir jól og sögðust hafa mikinn áhuga á mér, en þau vildu bíða með þetta fram yfir nýliðavalið í NWSL-deildinni, áður en það yrði samið við mig. Ég ætlaði ekki að bíða en lét þau vita að ef þau kæmu aftur væri ég áhugasöm um að semja og þau höfðu samband bara um leið og nýliðavalinu lauk og vildu ólm semja við mig,“ segir Svava um aðdraganda félagsskiptanna.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lið í Bandaríkjunum hafa sýnt Svövu áhuga.
„Það hefur áður verið áhugi frá Bandaríkjunum, sennilega þrisvar eða fjórum sinnum sem lið hafa lýst yfir áhuga sem ég hef fram að þessu neitað. Ég hef fengið samningsboð og lið sem reyndu aftur og aftur en ég neitaði því ég vildi spila lengur í Evrópu, en það er ekkert sjálfsagt að komast að í bandarísku deildinni og ég var ákveðin að skoða tilboðin vel ef þau kæmu frá Bandaríkjunum í ár.“
Hún segist vera spennt að spreyta sig í bandarísku deildinni sem er með þeim sterkari í heiminum.
„Það er komin mikil spenna, þetta er öðruvísi og nýtt tækifæri. Ég er búin að vera í Skandinavíu, lengst af í Noregi og í Svíþjóð, eitt ár í Frakklandi og langaði að fara eitthvert utan Evrópu. Mér finnst bandaríska deildin mjög heillandi, hún er mjög sterk og umfangið er allt í fremstu röð. Svo eru sterkari leikmenn sem maður æfir með og spilar gegn svo að það ætti að hjálpa manni að taka framförum. Það stóð til boða að vera áfram í Noregi en ég vildi skoða hvað væri í boði og ég ákvað að það væri gott skref að fara í sterkari deild,“ segir Svava sem var áður búin að leita ráða hjá Gunnhildi og Dagnýju Brynjarsdóttur um lífið í bandarísku deildinni.
„Ég talaði við þær fyrir einu eða tveimur árum þegar kom fyrirspurn. Þá spurðist ég fyrir og ræddi talsvert við þær, svo að mér fannst ég vera orðin nokkuð fróð um deildina.“
Þar sem Gotham vildi í fyrstu bíða með að semja við Svövu fór landsliðsframherjinn í viðræður við nokkur lið.
„Það var áhugi víða, meðal annars voru nokkur ensk lið sem höfðu samband og vildu fá mig og ég fór í einhverjar viðræður þar. Það voru lið frá Portúgal, Spáni, Englandi, Mexíkó og Bandaríkjunum sem sýndu áhuga en um leið og Gotham kom til baka kom ekkert annað til greina.“