Knattspyrnumaðurinn Óttar Magnús Karlsson sem leikur með Víkingi er undir smásjá erlendra félaga en fotbolti.net greinir frá því að ítalska B-deildarliðið Venezia hafi áhuga á að fá hann í sínar raðir.

Það yrði mikil blóðtaka fyrir Víking að missa Óttar Magnús úr sínum röðum en hann hefur skorað 9 af 19 mörkum liðsins á Íslandsmótinu í sumar. Einungis þrjú neðstu lið deildarinnar, KA, Grótta og Fjölnir, hafa skorað færri mörk en Víkingur í deildinni í sumar.

Þessi 23 ára gamli Víkingur hefur utan uppeldisfélags síns leikið með unglingaliðum Ajax, norska liðinu Molde og sænsku liðunum Trelleborg og Mjällby á ferli sínum.

Þá hefur hann skorað níu mörk fyrir yngri landslið Íslands og tvö mörk í þeim níu leikjum sem hann hefur spilað fyrir A-landsliðið. Óttar yrði annar íslenski leikmaðurinn í herbúðum Venezia er Bjarki Steinn Bjarkason söðlaði um frá Akranesi til Feneyja fyrr í sumar.