Telmo Castanheira, leikmaður ÍBV, er trúlega á leið frá félaginu eftir tímabilið, en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur allavega eitt félag í Pepsi Max-deildinni sýnt leikmanninum áhuga. Telmo, sem var kjörinn besti leikmaður ÍBV í fyrra þegar liðið féll úr úrvalsdeildinni, hefur spilað 18 leiki í sumar en ekki tekist að skora. Telmo er Portúgali sem ólst upp hjá Porto en gekk í raðir ÍBV í fyrra.

Telmo hefur skorað tvö mörk í bikarnum þar sem ÍBV mætir FH í undanúrslitum, ef KSÍ tekst að koma að lokakafla bikarkeppninnar í þétta dagskrá næstu vikurnar. Ljóst er að ÍBV nær ekki markmiði sínu að komast upp í deild þeirra bestu á þessu ári. Eyjamenn, sem byrjuðu tímabilið af miklum krafti, eru með þrjátíu stig um miðja deild þegar tvær umferðir eru eftir og geta ekki komist ofar en fjórða sætið.