Íslenskir stuðningsmenn geta mætt á leiki íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem fram fara í október. Þá mætir íslenska liðið Rúmeníu í umspili um laust sæti á EM 2021 og Danmörku og Belgíu í Þjóðadeildinni á Laugardalsvellinum. Takmarkanir verða hins vegar á áhorfendafjölda á þessum leikjum.

Hámarksfjöldi áhorfenda á hverjum leik miðast við 30% af heildarsætafjölda viðkomandi leikvangs, en þó með hliðsjón af hámarksfjölda samkvæmt lögum og reglum í hverju landi, auk þess sem þessi heimild gerir ráð fyrir umfangsmiklum sóttvörnum á hverjum leikvangi samkvæmt nýútgefnum reglum UEFA.

Ekki er gert ráð fyrir stuðningsmönnum gestaliða sérstaklega. Frekari upplýsinga er að vænta frá UEFA um nánari útfærslu þessara reglna. 

Knattspyrnusamband Íslands, KSÍ, vinnur nú að undirbúningi leikjanna og útfærslu sóttvarnarhólfa í samræmi við fjöldatakmarkanir. Verða nánari upplýsingar um miðasölu, aðgengismál, sóttvarnir og fleira gefnar út eins fljótt og mögulegt er.