Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, úrskurðaði í dag að næsti heimaleikur Ungverja skyldi fara fram fyrir luktum dyrum og sektaði ungverska knattspyrnusambandið um 216 þúsund dollara eftir að stuðningsmenn Ungverjalands beittu leikmenn Englands kynþáttaníði á dögunum.

Var verið að úrskurða eftir að enska knattspyrnusambandið tilkynnti kynþáttafordóma sem áttu sér stað á meðan leik Ungverjalands og Englands stóð í undankeppni HM 2022 þegar hluti stuðningsmanna Ungverjalands gáfu frá sér apahljóð þegar Raheem Sterling og Jude Bellingham komu við boltann.

Þá var glösum kastað í átt að leikmönnum enska landsliðsins og tókst einum Ungverja að grýta blysi inn á völlinn þegar Englendingar fögnuðu marki.

Fyrir vikið úrskurðaði FIFA að Ungverjar skyldu leika einn leik án áhorfenda, greiða sekt og eru um leið komnir á skilorð til tveggja ára.

Ef stuðningsmenn Ungverja verða uppvísir að kynþáttaníði aftur á þeim tíma bætist einn leikur fyrir luktum dyrum við refsingu FIFA.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem ungverska knattspyrnusambandið er dæmt til að leika fyrir luktum dyrum.

Áður hafði evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, úrskurðað þriggja leikja áhorfendabann á heimaleikjum ungverska landsliðsins eftir hegðun sína á Evrópumótinu 2020.