Lögð var áhersla á hluti sem hafa verið í brennidepli í íþróttalífinu undanfarið, næstu skref í aðstöðumálum væri og hvernig væri hægt að koma í veg fyrir ofbeldi innan íþróttarhreyfingarinnar.

Um leið spurði Fréttablaðið út í stefnu flokkanna þegar kemur að afreksmálum en afreksíþróttafólk skoraði á stjórnvöld fyrr á þessu ári að styðja betur við bakið á íþróttafólki.

Framsókn, Miðflokkur, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Viðreisn og Vinstri grænir svöruðu spurningum Fréttablaðsins en ekki barst svar frá Flokki fólksins áður en blaðið fór í prent.

Eftirfarandi eru svörin sem bárust Fréttablaðinu í stafrófsröð.

Sigurður Ingi, formaður Framsóknar

Framsókn

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Undirbúningur að byggingu þjóðarleikvanga hófst á þessu kjörtíma undir stjórn Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Þeir verða fyrir allar íþróttir hvort sem það er knattspyrna, inniíþróttir eða frjálsaríþróttir.

Framsókn stefnir á að ljúka uppbyggingu að nýjum þjóðarleikvöngum á næsta kjörtímabili í samstarfi við íþróttahreyfinguna.

Að öll óbreyttu, og með Framsókn í ríkisstjórn, þá er það raunhæft markmið að ljúka framkvæmdum á næsta kjörtímabili.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Framsókn telur möguleika á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga vera til staðar. Styðja þarf betur við afreksíþróttafólk sem keppir fyrir hönd Íslands í hinum ýmsu íþróttum. Framsókn vill auka fjárframlög til afrekssjóðs sérsambanda og auka framlög í ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga til að jafna aðstöðumun íþróttafólks á landsbyggðinni.

Að auki vill Framsókn styðja sérstaklega við íþróttafélög sem starfrækja meistaraflokk kvenna til að jafna fjárhagslegan mun milli karla- og kvennadeilda í afreksstarfi.

Einnig er vert að benda á árlegan 60 þúsund króna vaxtarstyrk, sem er ein aðaláhersla Framsóknar fyrir komandi kosningar, en með honum er aðgengi barna að íþróttum jafnað óháð efnahag.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Varðandi þetta er vert að benda á það að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, bjó til stöðu samskiptaráðgjafa vegna áreitnismála innan íþróttahreyfingarinnar á þessu kjörtímabili. Forvarnir og fræðsla þurfa ávallt að sæta frekari endurskoðun og eflingu með tímanum, en hún hefst almennt í skólunum.

Lilja Alfreðsdóttir hefur einnig unnið í átt að slíkri endurskoðun og eflingu á þessu kjörtímabili, t.d. varðandi forvarnir gagnvart áreiti ásamt betri og nútímalegri kynfræðslu í skólum. Framsókn vill halda því góðu starfi áfram og sjá til þess að fræðsla barna í skólum og innan íþróttahreyfingarinnar sé eins góð og mögulegt er.

Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins
Fréttablaðið/Eyþór

Miðflokkurinn:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Það er raunverulega raunhæft að ráðast í slíkar framkvæmdir og er á stefnuskrá Miðflokksins. Miðflokkurinn styður hugmyndir ÍSÍ og sérsambanda um að byggja yfirbyggðan fjölnota þjóðarleikvang í Laugardal og byggingu fjölnota íþróttahallar fyrir handbolta, körfubolta, fimleika, frjálsar, o.fl. íþróttagreinar. Einnig þarf að byggja veglegan frjálsíþróttavöll. Það er hneisa að við íslendingar getum ekki boðið okkar fremsta íþróttafólki, aðstandendum og stuðningsaðilum upp á íþróttaaðstöðu sem uppfyllir kröfur alþjóðlegra sérsambanda. Miðflokkurinn hefur raunverulega fólk innan sinna raða sem hafa getu og kunnáttu til að hrinda slíkum framkvæmdum af stað.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Bættir afrekssjóðir fyrir íslendinga eru á stefnuskrá Miðflokksins. Miðflokkurinn ætlar að auka framlög í afrekssjóð til að efla starfsemi unglingalandsliða. Afreksíþróttafólkið okkar skapar fyrirmyndir og er mikil hvatning fyrir börn og unglinga til að taka þátt í íþróttum og um leið góð kynning fyrir land og þjóð.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Miðflokkurinn hafnar öllu ofbeldi. Samfélagið allt þarf að taka höndum saman til að vinna bug á því. Íþróttahreyfingin og önnur þau félagasamtök sem bjóða upp á þjónustu fyrir börn og unglinga í tómstundastarfi ásamt öðru starfi verði boðið uppá leiðbeiningar, kennslu og almenna fræðslu um heilbrigð mannleg samskipti og gjörðir. Ríkið komi þar myndarlega að málum, því við erum öll í þessu saman.

Þórhildur Sunna, formaður Pírata

Píratar:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Það er auðvitað hálfgerð þjóðarskömm að við getum ekki haldið landsleiki með sóma. Hvort uppbyggingin hefjist á næsta kjörtímabili ræðst af samsetningu ríkisstjórnarinnar.

Síðustu ríkisstjórnir hafa a.m.k. ekki staðið sig í stykkinu. Á sama tíma verður einnig að huga að aðstöðu annara íþrótta líka. Þar verða stjórnvöld að gæta jafnræðis og setja skýra og forgangsraðaða áætlun um uppbyggingu í málefnum íþrótta á Íslandi.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Píratar eru með áætlun um Nýsköpunarlandið Ísland. Við horfum á nýsköpun í stóru samhengi opinberrar stjórnsýslu, tækni, skapandi greina og menningar – og íþróttir falla þar rækilega undir.

Slíkur stuðningur myndi ekki síst beinast að grasrót íþróttastarfsins og að auka fjölbreytni íþróttahreyfingarinnar, en þar leika fyrirmyndir – afreksíþróttafólk – lykilhlutverk. Slík fjárfesting hefur mjög mikil áhrif á almennt íþróttastarf og til þess fallin að auka áhuga og þátttöku í íþróttum.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Íþróttahreyfingin er nánast með öll börn þjóðarinnar í höndunum og fær til sín mikið opinbert fé. Það þarf að leggjast rækilega yfir það hvort það fé sé ekki örugglega að skila sér í heilbrigðu umhverfi og góðum fyrirmyndum.

Við sem samfélag eigum að gera þá kröfu. Þess vegna hafa Píratar sett jafnrétti í íþróttum rækilega á dagskrá innan borgarkerfisins.

Við þurfum aukna fræðslu, forvarnir og samtal – þar sem íþróttasamfélagið og íþróttafréttamenn eru síst undanskilin. Svo þurfa fulltrúar KSÍ að hætta að rægja þolendur í fjölmiðlum.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar

Samfylkingin:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Þjóðarleikvangur í knattspyrnu ætti að geta komist vel á veg á næsta kjörtímabili. Það á eftir að fullhanna mannvirkið og lenda samningum um rekstur á þjóðarleikvangnum.

Ef allt gengur hratt og vel fyrir sig ætti að vera hægt að hefja framkvæmdir á næsta kjörtímabili. Þó vekur athygli að í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2022-2026 er ekkert fjármagn eyrnamerkt til þjóðarleikvangs.

Varðandi þjóðarleikvang í innanhúss íþróttum er mikilvægt er að stærð nýs vallar endurspegli bæði alþjóðlegar kröfur en sé jafnframt í samræmi við sætanýtingu. Þá er mikilvægt að nýr þjóðarleikvangur í innanhúsíþróttum sé eins sveigjanlegur og hægt er svo hann megi nýta fyrir eins margar innanhússíþróttir og hægt er.

Fyrst þarf þó að ákveða að reisa nýtt mannvirki, hanna það, ná samningum um rekstur þess og svo má hefja framkvæmdir. Ef fólk brettir upp ermar, væri hægt að ljúka mörgu af ofangreindu á næsta kjörtímabili.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Þetta er eitt af þeim málum sem Samfylkingin kom til lykta á Alþingi í vor þegar Alþingi samþykkti tillögu Helgu Völu Helgadóttur sem hún lagði fram í annað sinn að settur verði á laggirnar launasjóður fyrir afreksíþróttafólk í einstaklings- og hópíþróttum. Tilgangur slíks sjóðs er að auka fjárhagslegt öryggi afreksíþróttafólks hér á landi og auka möguleika þess til að helga sig íþróttastarfi sínu.

Árum saman hefur verið kallað eftir viðlíka stuðningi en með því að láta þennan launasjóð verða að veruleika og greiða með því afreksíþróttafólki starfslaun tímabundið, aukast réttindi þess og öryggi. Eftir íþróttaferilinn stendur margt íslenskt afreksíþróttafólk uppi með skuldir og réttindalaust.

Afreksíþróttafólk nýtur ekki lífeyrisréttinda, stéttarfélagsaðildar, aðgengis að sjúkra- og starfsmenntasjóði, né réttinda til fæðingarorlofs svo eitthvað sé nefnt einfaldlega vegna þess að sá stuðningur sem það þó getur fengið í formi styrkja frá fyrirtækjum telst ekki sem laun heldur styrkur.

Nú er þetta í höndum næstu ríkisstjórnar að fylgja málinu eftir. Samfylkingin mun sannarlega halda málinu á lofti.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Íþróttahreyfingin þarf að vinna heilshugar með jafnrétti allra kynja að leiðarljósi og gefa sérstakan gaum að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, áreitni eða ómenningu. Fræðsla og skýr skilaboð þarf til iðkenda, þjálfara og sjálfboðaliða um að þess háttar leyfist alls ekki innan raða íþróttahreyfingarinnar.

Taka þarf á málum sem upp koma af festu og samkvæmt verkferlum og gera á kröfu um að slíkt verklag sé til staðar við opinberar styrkveitingar. Þarna eru landssambönd og stjórnvöld mikilvægir fræðslu og stuðningsaðilar.

Þegar kemur að kynferðisbrotum og meðferð þeirra þarf að tryggja þolendum langtímastuðning, styttri málsmeðferðartíma og málsaðild þegar réttað er yfir geranda.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
Mynd/Fréttablaðið

Sjálfstæðisflokkurinn:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á byggingu nýs þjóðarleikvangs í Laugardalnum. Til að hægt sé að hrinda verkefninu í framkvæmd verða borgaryfirvöld að koma að málinu. Það eru allar forsendur til að ráðast í framkvæmdir á komandi kjörtímabili.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Sjálfstæðisflokkurinn styður stofnun sérstaks alhliða afrekssjóðs sem samstarfsverkefni ríkisins og íþróttahreyfingarinnar. Um leið leggur flokkurinn áherslu á að styðja við íþróttir á öllum stigum og að iðkendur hafi hvatningu og stuðning til þátttöku enda hefur íþróttastarf mikið forvarnargildi.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði frumkvæði að því að innleiða skattalega hvata til einstaklinga og fyrirtæki að styðja almannaheillasamtök, ekki síst íþróttafélög, fjárhagslega.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á traust, trúnað, gagnkvæma virðingu, uppbyggileg samskipti og jafnræði á öllum sviðum samfélagsins. Líkt og allir aðrir verður íþróttahreyfingin að vinna skipulega og opið gegn hvers konar ofbeldi.

Forysta íþróttahreyfingarinnar verður að tryggja að starfsfólk og sjálfboðaliðar á vegum hennar fái fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni.

Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna náið og skipulega með frjálsum félagasamtökum í baráttu gegn ofbeldi, ekki síst í gegnum menntakerfið.

Gunnar Smári, formaður Sósíalistaflokksins
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Sósíalistaflokkurinn:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Sósíalistaflokkur Íslands hefur ekki tekið aðstöðumál íþróttahreyfingarinnar sérstaklega fyrir en leggur mikla áherslu á að allar stórframkvæmdir sem almenningur vill sjá verða að veruleika fái réttláta afgreiðslu.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Sósíalistaflokkur Íslands tekur vel í að ríkið styrki starfsemi sem eflir heilbrigði en hefur ekki rætt afreksgreiðslur til íþróttafólks enn sem komið er.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Sósíalistaflokkur Íslands hefur á stefnuskrá sinni að sakamál og dómsmál, sér í lagi kynferðisbrotamál verði sett í gagngera endurskoðun svo réttarvörslukerfið verði þolendavænna á allan mögulegan máta.

Einnig mælast Sósíalistar til þess að sett verði á laggirnar ofbeldiseftirlit sem rannsaki eftir ábendingum eða eigin frumkvæði vinnustaði, skóla og opinbera staði og hafi vald til að bregðast við þar sem sýnt er að ofbeldi og áreitni grasserar, fjarlægja ofbeldismenn, svipta staði starfsleyfi og beita öðrum leiðum til að tryggja starfsfólki, nemum og gestum öryggi.

Eftirlitinu ber að einbeita sér sérstaklega að þeim stöðum þar sem valdaójafnvægi er mikið vegna tekjumunar, aldursmunar eða ólíks uppruna, stöðu eða valds.

Hvað varðar forvarnir telja flokksmenn að mikilvægt sé að taka umræðu um ofbeldi, eitruð samskipti og valdamisnotkun fyrir í skólum í auknum mæli, með aukinni meðvitund um aðstöðumun.

Þorgerður Katrín, formaður Viðreisnar

Viðreisn:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Núverandi ríkisstjórn hefur kynnt háleit áform um nýjan þjóðarleikvang í knattspyrnu án þess að gera ráð fyrir fjármögnun hans. Lítið hefur farið fyrir hugmyndum um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir hjá ríkisstjórninni.

Það er ljóst að við stöndum frammi fyrir mikilvægum verkefnum í innviðauppbyggingu sem nauðsynlegt er að fjármagna á næsta kjörtímabili. Það þarf hins vegar ekki að standa í vegi fyrir því að við bregðumst við þeirri slæmu stöðu sem uppi er varðandi þjóðarleikvanga úti- og inniíþrótta.

Nýr fjölnota þjóðarleikvangur í Laugardag er að mati Viðreisnar vel til þess fallinn að vera unninn í einkaframkvæmd með stuðningi ríkis og borgar.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Viðreisn fékk í vor samþykkta á Alþingi tillögu um að stjórnvöld settu sér heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum fyrir 1. júní 2022.

Tillagan fól í sér að stefnan yrði tímasett samhliða því að tryggður yrði fjárhagslegur stuðningur við afreksfólk.

Ofbeldismál. Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Íþróttahreyfingarnar leika lykilhlutverk í forvörnum. Kynferðislegt ofbeldi og áreitni ásamt kynbundnu ofbeldi hefur á síðustu misserum komist í hámæli og verður sífellt ljósara að um djúpstætt og víðfeðmt þjóðfélagsmein er að ræða.

Viðreisn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að tekin verði upp markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

Sjónum verði beint að öllum skólastigum og öllum stofnunum réttarvörslukerfisins.

Þá verði sérstök áhersla lögð á að styrkja frjáls félagasamtök þ.m.t. íþróttafélög, fjölmiðla og stofnanir til miðlunar fræðslu og sérstakra herferða sem beint verði að skilgreindum markhópum samfélagsins enda mikilvægt að styðja við þá sem leggja þessum málefnum lið með mikilvægu starfi og sérþekkingu.

Mikilvægt er að gæta að opnu ferli við úthlutun styrkja jafnframt því að gera kröfur til gæða þeirra verkefna sem verða styrkt.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Vinstri grænir:

Aðstöðumál. Nú er ljóst að þjóðarleikvangar Íslands standast ekki alþjóðlegar kröfur. Fyrir vikið er hætt við því að íslensk landslið þurfi að leika erlendis á næstu árum. Hversu raunhæft er að hægt verði að ráðast í framkvæmdir á næsta kjörtímabili?

Það á að stefna að því að ráðast í framkvæmdir á þjóðarleikvangi sem fyrst. Ríkisstjórnin gaf út tilkynningu þess efnis í nóvember 2020 að vonir stæðu til að ráðist yrði í slíkar framkvæmdir á næstu fimm árum.

Hins vegar þarf einnig að líta til þess að aðstaða til íþróttaiðkunar og útivistar almennt sé sem best. Þannig hefur VG hvatt sveitarfélögin til áframhaldandi góðra verka, hvort sem er til stuðnings við íþróttafélög á sínu svæði eða uppbyggingar til ástundunar íþrótta- og útivistar.

Afrekssjóður. Undanfarna mánuði hefur fremsta íþróttafólk landsins reynt að vekja athygli á skorti á bættum afrekssjóði til þess að auðvelda þeim að helga lífi sínu íþróttum líkt og þekkist erlendis. Telur flokkurinn að möguleikinn á bættum afrekssjóð fyrir Íslendinga sé til staðar?

Já. VG vill styðja þessar fyrirmyndir enn frekar með eflingu afrekssjóðs ÍSÍ að því marki að fleiri afreksíþróttamenn geti helgað sig æfingum og keppni án þess að hafa áhyggjur af sinni framfærslu. Þetta verði gert í samstarfi við ÍSÍ í gegnum afreksíþróttasjóð.

Undanfarnar vikur hafa sífellt fleiri ofbeldismál innan íþróttahreyfingarinnar litið dagsins ljós. Hvernig er hægt að vinna að forvörnum og koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig hjá næstu kynslóðum.

Það er ofboðslega mikilvægt að unnið sé að forvörnum í öllum birtingarmyndum. Sérstaklega innan íþróttahreyfingarinnar þar sem börn og ungmenni verja miklum tíma og eiga þar margar fyrirmyndir.

Um þetta er sérstaklega fjallað í aðgerðaráætlun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025 sem Katrín Jakobsdóttir lagði fram og samþykkt var á Alþingi í júní á síðasta ári. Þar er sérstakur kafli um forvarnir í íþrótta- og æskulýðsstarfi og höfuðáhersla lögð á fræðslu, bæði starfsfólks og sjálfboðaliða.

Sú fræðsla á að vera á ábyrgð stjórnenda íþróttafélaga, samkvæmt áætluninni. Auk þess var stofnað sérstakt embætti samskiptaráðgjafa íþrótta og æskulýðsstarfs á kjörtímabilinu. Ljóst er að þessum breytingum þarf að fylgja eftir af fullum krafti.

Ofbeldi á ekki að líðast.