Ágúst Þór Gylfason hefur samið við knattspyrnudeild Gróttu um að taka við þjálfun meistaraflokks karla hjá félaginu. Samningur hans við Gróttu er til þriggja ára.

Ágúst Þór sem stýrði Breiðabliki síðustu tvo keppinstímabilin tekur við liðinu af Óskari Hrafni Þorvaldssyni sem leysti hann af hólmi hjá Blikum.

Auk þess að þjálfa Breiðablik þar sem hann varð tvö ár í röð í öðru sæti Íslandsmótsins og laut í lægra haldi fyrir Stjörnunni í bikarúrslitum sumarið 2018 hefur Ágúst Þór þjálfað Fjölni á þjálfaraferli sínum.

Guðmundur Steinarsson sem hefur verið Ágústi Þór til aðstoðar hjá Blikum síðustu tvö ár verður aðstoðarmaður hans með Gróttuliðið. Þeir störfuðu einnig saman hjá Fjölni.

Grótta tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni síðastliðið haust og verður það hlutverk Ágústs Þórs að halda liðinu í deild þeirra bestu næsta sumar.