„Það voru mætir menn sem komu að máli við mig fyrir nokkrum dögum síðan og buðu mér að taka við Gróttuliðinu. Ég varð strax spenntur fyrir því hvaða stefnu þeir vildu taka og hvernig þeir sáu framtíðina fyrir sér hjá félaginu. Ég fann fyrir miklu trausti og það var ástæðan fyrir fyrir því að ég sló til," segir Agúst Þór Gylfason nýráðinn þjálfari karlaliðs Gróttu í knattspyrnu.

„Félagið mun keyra áfram á þeirri stefnu að byggja liðið upp á ungum og efnilegum Gróttumönnum í bland við unga og spennandi leikmenn úr öðrum liðum. Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga inn í þessa hugsun og ég held að hugmyndafræði mín og Guðmundar Steinarssonar henti liðinu vel;" segir Ágúst Þór enn fremur um verkefnið sem hann er að taka að sér.

„Ég finn mikinn meðbyr bæði hjá þeim sem koma af félaginu og bara bæjarfélaginu öllu að standa okkur vel næsta sumar. Nú er bara að smíða leikmannahópinn og undirbúa hann eins vel og mögulegt er fyrir komandi átök.

Mitt fyrsta verkefni er bara að átta mig á styrkleikum og veikleikum í hópnum og vinna í því að bæta okkur og laga það sem möguegt er að gera betur," segir hann um fyrstu verk sín á Seltjarnarnesinu.

„Þrátt fyrir að hafa unnið hjá liði sem hefur verið í toppbaráttunni síðustu tvo tímabil þá held ég að metnaðurinn sé slíkur hér að vinnuumhverfið sé svipað. Þú ferð ekki upp um tvær deildir án þess að hafa lagt mikið á þig og sýnt mikla fagmennsku. Ég mun svo móta minn leikstíl hérna og vonandi tekst okkur að gera góða hluti," segir þjálfarinn fullur tilhlökkunar.

„Það er líka gaman að taka þátt í því að skrifa söguna hérna á Seltjarnarnesinu og stýra Gróttu í fyrstu skrefum liðsins í efstu deild. Okkar fyrsta markmið verður að sjálfsögðu í efstu deild og ég tel það klárlega raunhæft. Við vitum hins vegar vel að það verður erfitt," segir Ágúst Þór um nálgun sína á komandi leiktíð.