Tomas Svensson, markmannsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, segist vera spenntur fyrir því að fara á fyrsta stórmót sitt sem hluti af íslenska þjálfarateyminu.

Tomas kom inn í þjálfarateymi karlalandsliðsins síðasta vor þegar Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við liðinu á ný.

„Það er frábært að vinna með íslenska liðinu, ég er afar ánægður eftir fyrstu mánuðina. Ég hef áður unnið með Guðmundi en nýt þess að vinna með öllu starfsliðinu,“ sagði Tomas þegar Fréttablaðið spjallaði við hann í dag.

Þetta er fyrsta stórmót liðsins eftir að Guðmundur tók við liðinu í þriðja sinn.

„Þetta verður erfitt, Ísland mætir heimsklassaliðum í byrjun sem eru sigurstrangleg á mótinu. Það er erfitt að spá fyrir en markmið okkar er að komast til Köln. Það myndi sýna að við erum á réttri leið og leikmennirnir myndu öðlast reynslu,“ sagði Tomas og hélt áfram:

„Það sést vel á HM hvar liðið stendur því liðið mætir bestu liðum heims. Við höfum æft vel undanfarna mánuði og sjáum þar afraksturinn hversu langt þetta lið er komið. Við erum með ungt lið en marga efnilega stráka sem verður fróðlegt að sjá hvernig standa sig á þessu sviði.“

Ákvörðun var tekin í dag um að taka Ágúst Elí Björgvinsson með í stað Arons Rafns Eðvarssonar sem er að glíma við meiðsli.

„Allir þrír markmennirnir komu sterklega til greina. Björgvin Páll er með mestu reynsluna og þurfum á því að halda. Aron Rafn og Ágúst eru á svipuðum stalli en þeir eru ólíkir markmenn,“ sagði Tomas og hélt áfram

„Aron Rafn er stærri en Ágúst er minni en sneggri. Við vildum taka Ágúst með til Noregs og það var gott að sjá hann þar. Hann svaraði þeim spurningum sem við höfðum og stóð sig vel. Hann er ekki hávaxinn en það getur verið kostur, hann er fljótari og nýtist öðruvísi.“

Hann hrósaði Ágústi fyrir frammistöðuna í Svíþjóð. 

„Hann er að spila vel með Savehof í Svíþjóð, með flotta tölfræði og nær vonandi að færa það yfir í landsliðið. Hann er að spila mikið og að keppa við einn efnilegasta markmann Svíþjóðar. Það er ekki auðvelt að halda honum út úr liðinu.“