Sävehof með Ágúst Elí Björgvinsson landsliðsmarkvörð í handbolta getur tryggt sér farseðilinn í úrslitarimmu sænsku úrvalsdeildinnnar í handbolta karla í kvöld.

Ágúst Elí og félgar hans hjá Sävehof eru 2-1 yfir í einvígi sínu í undanúrslitum gegn Skovde og sigur í kvöld þýðir að liðið mætir Al­ingsås í úrslitum.

„Mér finnst ég vera orðinn mun betri markvörður en ég var í haust þegar ég hóf leiktíðina með Sävehof," segir Ágúst Elí í samtali við handbollsligan.se en þessi 24 ára gamli Hafnfirðingur kom til liðsins frá FH síðasta sumar.

„Það tók smá tíma að aðlagast nýju umhverfi, læra nýtt tungumál og kynnast nýjum liðsfélögum. Eftir að ég komst betur inn í hlutina byrjaði ég að bæta mig jafnt og þétt," segir hann enn fremur um tíma sinn í Svíþjóð.

„Þessi sería við Skovde hefur verið mjög skemmtilegir og leikirnir hingað til verið mjög jafnir. Ég held að ég hafi aldrei tekið í úrslitakeppni með jafn mörgum jöfnum leikjum og þessari," segir markvörðurinn öflugi um leiki Sävehof við Skovde.

„Við erum með fulla einbeitingu á þessum fjórða leik sem fram fer í kvöld og við erum ekkert að fara fram úr okkur þrátt fyrir að vera í góðri stöðu. Þetta getur farið á hvorn veginn sem er og vonandi klárum við þetta í kvöld," segir hann um leikinn sem fram undan er.