Markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson er að semja við danska félagið Kolding um að leika með félaginu frá og með næsta hausti.

Samningaviðræður Ágústs og Savehöf í Svíþjóð sigldu í strand fyrr í vetur og var þá tilkynnt að Ágúst myndi yfirgefa félagið sumarið 2020.

Ágúst samdi við sænska félagið árið 2018 og varð sænskur meistari með félaginu á fyrsta ári sínu. Hjá Kolding hittir hann fyrir Ólaf Gústafsson og Árna Braga Eyjólfsson.

Liðið er eins og sakir standa í 12. sæti dönsku efstu deildarinnar með 10 stig en liðin sem hafna í 9. - 13. sæti sæti deildarinnar fara í umspil um að halda sæti sínu í deildinni á næstu leiktíð.

Markvörðurinn var ekki í hóp íslenska landsliðsins á EM í handbolta sem fór fram í Svíþjóð á dögunum en hann hefur áður farið með íslenska liðinu á EM og HM.