Agnes Suto-Tuuha hefur verið í fremstu röð í keppni í áhaldafimleikum kvenna hér á Íslandi í áraraðir. Agnes varð Íslandsmeistari í fjölþraut 2019 og í verðlaunasætum á öllum áhöldum.

Hún varð bikarmeistari 2019 með Gerplu og sigraði GK-meistaramót. Agnes tók þátt í öllum landsliðs verkefnum vorannar, sem byrjaði með Evrópumótinu í Póllandi. Þaðan lá leiðin á Flanders international team challenge og að lokum vann hún sér sæti á Evrópuleikunum í Minsk, en hún var eini kvennkeppandi Íslands á leikunum í fimleikum.

Að leikunum loknum lagði hún áhaldafimleikabolinn á hilluna og lauk keppnisárinu með því að taka þátt í sínu fyrsta hópfimleikamóti þegar hún keppti með liði Gerplu á Norðurlandamótinu í hópfimleikum.

Valgarð Reinharðsson varð Íslandsmeistari í fjölþraut auk þess sem hann vann sigur á fjórum áhöldum af sex í keppni á einstökum áhöldum. Hann varð einnig bikarmeistari með liði sínu Gerplu. Valgarð stóð sig vel í alþjóðlegum verkefnum og vann meðal ananrs brons verðlaun á svifrá á Norður Evrópumóti.

Einnig komst hann í úrslit á gólfæfingum á heimsbikarmóti í Koper, en hann var einnig varamaður í úrslit á tvíslá á sama móti. Á árinu keppti Valgarð einnig á Evrópuleikunum í Minsk og heimbikarmóti í Melbourne í Ástralíu.

Kvennalið Stjörnunnar er svo lið ársins en Garðabæjarliðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 2019 og varði þar með titilinn frá árinu áður. Liðið varð í öðru sæti á Norðurlandamótinu sem fram fór í nóvember 2019 og var hársbreidd frá því að vinna til gullverðlauna.

Á Norðurlandamótinu fékk liðið hæstu einkunn í gólfæfingum eða 21.575 stig, sem er hæsta einkunn sem gefin hefur verið fyrir gólfæfingar í hópfimleikum hingað til.

Afrek ársins var svo valið þegar Valgarð gerði sér lítið fyrir og tryggði sér sæti í úrslitum á gólfi. Hann var áttundi inn í úrslitin en vann sig upp um tvö sæti í úrslitunum og hafnaði í 6 sæti sem er best árangur sem Íslendingur hefur náð í gólfæfingum á erlendum vettvangi.